Samið um áframhaldandi þjónustu geðheilsuteymis fanga
Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) hafa gert með sér samkomulag um að HH sinni áfram geðheilbrigðisþjónustu við fanga í öllum fangelsum landsins. Gjörbreytt fyrirkomulag geðheilbrigðisþjónustu í fangelsum landsins með stofnun sérstaks geðheilsuteymis varð að veruleika í fyrra og markaði tímamót. Heilbrigðisráðherra hefur staðfest samkomulag SÍ og HH sem felur í sér samning um óbreytta þjónustu til loka árs 2021.
Samningur um geðheilbrigðisþjónustu við fanga sem undirritaður var í desember í fyrra fól í sér nýmæli þar sem m.a. var kveðið á um stofnun sérhæfðs, þverfaglegs geðheilsuteymis fanga. Hlutverk teymisins er að starfa með og styðja við starfsemi heilsugæslunnar í fangelsum landsins. Breyttu fyrirkomulagi fylgdu jafnframt auknir fjármunir og voru um 70 milljónir króna merktar þjónustunni á þessu ári.
Nýtt og gjörbreytt skipulag geðheilbrigðisþjónustu við fanga sem komið var á fót í fyrra byggist á niðurstöðum CPT-nefndarinnar (nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu). Nefndin gerði ýmsar athugasemdir við þáverandi fyrirkomulag þjónustunnar og lagði jafnframt áherslu á að geðheilbrigðisþjónusta innan fangelsa eigi að vera sambærileg þeirri heilbrigðisþjónustu sem aðrir landsmenn njóta eftir því sem unnt er. Ákvörðun um að byggja þjónustuna upp í sérstöku geðheilsuteymi fanga sem hluta af opinbera heilbrigðiskerfinu á vettvangi heilsugæslunnar er einnig í samræmi við ábendingar CPT-nefndarinnar. Breytt skipulag þjónustunnar hefur reynst mikilvægur liður í því að tryggja föngum einstaklingsmiðaða, samfellda og samhæfða þjónustu með formlegum og skilvirkum boðleiðum milli þjónustustiga eftir því hvort um er að ræða fyrsta, annars, eða þriðja stigs heilbrigðisþjónustu, líkt og nánar er skilgreint í heilbrigðisstefnu til ársins 2030.