Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Auðlind í tungumálum: Fjölsótt ráðstefna um menntun fjöltyngdra nemenda

Ráðstefna mennta- og menningarmálaráðuneytisins um menntun fjöltyngdra nemenda í leik-, grunn- og framhaldsskólum fór fram með rafrænum hætti í gær. Tæplega 300 þátttakendur fylgdust með og tóku þátt í umræðum. Meðal framsögumanna voru Jóhanna Einarsdóttir prófessor við Menntavísindasvið HÍ, Isabel Alejandra Diaz forseti Stúdentaráðs HÍ og Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir kennsluráðgjafi og verkefnastjóri í íslensku sem öðru máli í Reykjanesbæ.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra setti ráðstefnuna og greindi frá áherslum á menntun fjöltyngdra nemenda í nýrri menntastefnu og hvernig umbótaaðgerðir í menntamálum miða að því að efla menntun þeirra og fjölga tækifærum til framtíðar.

„Það skiptir lykilmáli fyrir okkur öll hvernig tekið er á móti auknum fjölda nemenda af erlendum uppruna á öllum skólastigum. Reynsla þeirra og önnur tungumálakunnátta auðgar samfélagið til framtíðar og meðvitund um mikilvægi þess fer sífellt vaxandi,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Sjá upptöku frá ráðstefnunni. 

Yfirlit yfir framsögur ráðstefnunnar:

  • Jóhanna Einarsdóttir prófessor við Menntavísindasvið HÍ sem gerði grein fyrir vinnu starfshóps mennta- og menningarmálaráðuneytisins um menntun barna með fjölbreyttan tungumála og menningarbakgrunn.
  • Omar Almohammad og Tinna María Þorleifsdóttir komu fram sem fulltrúar Ungmennaráðs Samfés. Omar lýsti þeim áskorunum sem mæta nemendum í framhaldsskólanum sem ekki hafa náð tökum á íslensku, ekki síst á tímum Covid-19. Tinna María sagði frá samstarfsverkefni milli grunn- og framhaldsskóla og Samfés sem snýst um liðsinni við ungmenni af erlendum uppruna. 
  • Hanna Ragnarsdóttir prófessor við Menntavísindasvið HÍ fjallaði um fjölmenningarlega menntun og mikilvægi þess að allir nemendur – óháð kyni þeirra, stétt, menningu og uppruna – hafi jöfn tækifæri til menntunar og að skólastarf sé miðað að þörfum allra nemenda, ekki bara nemenda úr tilteknum menningarhópum.
  • Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir kennsluráðgjafi og verkefnastjóri í íslensku sem öðru máli í Reykjanesbæ kynnti stöðumat fyrir nemendur af erlendum uppruna sem mikilvægt verklag til að hægt sé að mæta nemendum út frá einstaklingsþörfum þeirra og færni.
  • Artëm Ingmar Benediktsson nýdoktor við HÍ talaði um menningarmiðaðar kennsluaðferðir og lýsti aðalatriðum slíkra kennsluaðferða sem geta aðstoðað kennara við að ígrunda námsumhverfi út frá menningarlegu sjónarhorni og koma þannig til móts við alla nemendur.
  • Sigríður Ólafsdóttir lektor við Menntavísindasvið HÍ fjallaði um rannsóknir sem benda til þess að að fyrir farsæla námsframvindu er það ekki spurning um það hve mörg tungumál börn nota heldur í hvaða mæli þau nota tungumálin sín, og þá skiptir mestu máli innihaldsrík notkun á tungumálinu sem þau nota í náminu. Á Íslandi sé íslenskan lykill að námsárangri, grundvallarfærni í námstengdri íslensku.Virkni í skólastarfi er hvort tveggja í senn, námsmarkmið og leið til eflingar íslenskufærni.
  • Renata Emilsson Pesková doktorsnemi við HÍ og stjórnarmaður í Móðurmál – samtökum um tvítyngi kynnti nýjan leiðarvísi um stuðning við móðurmál og virkt fjöltyngi í skóla- og frístundastarfi sem nú er aðgengilegur á íslensku, ensku og pólsku.
  • Isabel Alejandra Diaz forseti Stúdentaráðs HÍ deildi reynslu sinni af því að alast upp sem nýr Íslendingur á Ísafirði. Hún fór í gegnum grunn- og framhaldsskóla á Ísafirði en stundar nú nám í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
  • Björn Rúnar Egilsson aðjunkt og doktorsnemi við HÍ fjallaði um raddir foreldra og hvernig fjölskyldur sem ekki eiga íslensku að móðurmáli meta mikilvægi þess að læra íslensku í samhengi við nám og tækifæri til framtíðar. 
  • Kristín Jónsdóttir kennslukona og dósent á Menntavísindasvið fjallaði um kennaramenntun og ný lög um menntun, hæfni og ráðningu kennara sem kveða á um að menntun kennara og skólastjórnenda miði að því að þeir hafi almenna hæfni til að kenna nemendum með fjölbreytilegan tungumála- og menningarbakgrunn.
  • Susan Rafik Hama doktorsnemi í fjallaði í erindi sínu um foreldra flóttabarna og sagði að þeir hefðu sannarlega mikinn mikinn áhuga á menntun barna sinna þrátt fyrir erfiðleikana sem þau standa frammi fyrir. Þekking kennara á ólíkum tungumálum, menningu og bakgrunni nemenda er mikilvægur stuðningur bæði fyrir börn og fjölskyldur þeirra.
  • Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningarmála Reykjanesbæ kynnti verkefnið „Allir með“ sem minnir okkur á sameiginlega ábyrgð okkar allra í því að allir hafi tækifæri til þess að tilheyra samfélagsheildinni.

Unnið er að hvítbók sem byggir á stefnudrögum starfshóps mennta- og menningarmálaráðuneytisins um menntun barna með fjölbreyttan tungumála og menningarbakgrunn sem Jóhanna Einarsdóttir stýrði. Ráðgert er að hvítbókin verði kynnt í byrjun árs 2021.

Ráðstefnan var haldin í samstarfi við Háskólann á Akureyri, Heimili og skóla – landssamtök foreldra, Kennarasamband Íslands, Menntamálastofnun, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðju máls og læsis, Móðurmál – samtök um tvítyngi, Samfés, Samtök íslenskra framhaldsskólanema, Samband íslenskra sveitarfélaga, Skólameistarafélag Íslands. 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta