Íslenski skálinn á aðalsvæði tvíæringsins
Feneyjartvíæringurinn er alþjóðleg myndlistarsýning helguð samtímalist og einn elsti og virtasti listviðburður heims. Til hans var stofnað árið 1895 en Ísland hefur tekið þátt í tvíæringnum frá árinu 1960.
Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, sem hefur umsjón með íslenska skálanum fyrir hönd ráðuneytisins, hefur undirritað samning við skrifstofu Feneyjatvíæringsins um nýtt húsnæði fyrir íslenska skálann á Arsenale, aðalsvæði sýningarinnar. Í kringum sexhundruð þúsund gestir heimsækja að jafnaði það svæði sem þýðir að gestafjöldi í íslenska skálanum geti nær tuttugufaldast frá því sem verið hefur síðastliðin ár.
„Það er gleðilegt að fleiri fái notið framlags Íslands á næsta tvíæringi. Þátttaka í Feneyjartvíæringnum hefur reynst mikilvæg lyftistöng fyrir íslenska myndlistarmenn og ég er þess fullviss að svo verður áfram,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
„Ísland á að baki farsæla sögu á Feneyjatvíæringnum og í gegnum tíðina hafa margir okkar frambærilegustu listamanna verið fulltrúar þar. Nú fáum við tækifæri til að vera staðsett inni í kjarna tvíæringsins og fleiri gestir geta sótt okkur heim. Það er skiptir okkur gríðarlegu máli,“ segir Auður Jörundsdóttir forstöðumaður Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar.
Feneyjatvíæringnum sem fara átti fram árið 2021 hefur verið frestað til ársins 2022 vegna áhrifa COVID-19. Fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum 2022 verður Sigurður Guðjónsson.