Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2020 Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór ræddi viðskipta- og efnahagsmál á símafundi með Pompeo

Mike Pompeo og Guðlaugur Þór á fundi sínum í Hörpu í febrúar 2019 - myndUtanríkisráðuneytið

Viðskipta- og efnahagsmál voru aðalumræðuefnið á fjarfundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna í dag. 

Lýsti Guðlaugur Þór meðal annars yfir ánægju með formlegt efnahagssamráð ríkjanna sem sett var á laggirnar eftir fund ráðherranna í fyrra. „Bein og milliliðalaus samskipti við helstu ráðamenn í okkar mikilvægasta viðskiptalandi eru ómetanleg enda höfum við náð markverðum áföngum undanfarin misseri. Reglubundið efnahagssamráð hefur verið fest í sessi og Íslandsfrumvarpið er nú í umfjöllun Bandaríkjaþings. Fundur okkar Pompeo í dag staðfesti enn frekar góð tengsl ríkjanna og að væntingar um að þau geti aukist enn frekar séu á rökum reistar,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Guðlaugur Þór og Mike Pompeo hittust fyrst í Washington í janúar 2019 og svo aftur í Reykjavík rúmum mánuði síðar. Á þeim fundi var ákveðið að setja efnahagssamráð ríkjanna á fót og var fyrsti fundur þess haldinn í Reykjavík snemmsumars 2019.  Í síðustu viku fór svo efnahagssamráðið fram í annað sinn og var á þeim fundi undirritað sameiginlegt minnisblað um áframhaldandi samvinnu á ýmsum sviðum á þessum vettvangi og að festa samráðið í sessi þannig að það verði eftirleiðis haldið árlega. Þessi vettvangur gefur tækifæri til að ræða á breiðum grundvelli mál sem varða efnahags og viðskiptasamskipti landanna. Samráðsfundina sitja embættismenn frá báðum ríkjum, fyrir Íslands hönd taka auk þess fulltrúar Íslandsstofu þátt.

Þessu til viðbótar hefur Bandaríkjaþing nú til umfjöllunar frumvarp um sérstakar vegabréfsáritanir fyrir íslenskt viðskiptafólk, svonefndar E1 og E2-áritanir. Ákvörðun um að þingið fjallaði um málið, Íslandsfrumvarpið sem svo hefur verið kallað,  lá fyrir í lok síðasta árs eftir árangursríka málafylgju íslenskra stjórnvalda þar að lútandi. Má í því sambandi nefna heimsókn utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra til Washington í fyrra þar sem hann átti fundi með fjölmörgum þingmönnum beggja deilda þingsins. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta