Ný stefna í málefnum hinsegin fólks samþykkt á fundi norrænna ráðherra jafnréttismála
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og ráðherra jafnréttismála, sat fjarfund norrænna jafnréttisráðherra í dag. Ráðherrarnir samþykktu stefnu í málefnum hinsegin fólks sem byggir á kortlagningu á stöðu og réttindum hinsegin fólks í löndunum sem gefin er út samhliða fundinum. Nú tekur norræna ráðherranefndin um jafnréttismál einnig til málefna hinsegin fólks og er þetta fyrsta stefnan í þessum málaflokki sem samþykkt er í ráðherranefndinni. Þá var einnig samþykkt fjármögnun á norrænum rannsóknarsjóði sem tekur til þeirra málefna sem #metoo hreyfingin vakti athygli á.
Forsætisráðherra kynnti aðgerðir íslenskra stjórnvalda í jafnréttismálum, s.s. nýtt frumvarp til jafnréttislaga sem tekur nú einnig til fólks sem kýs að skilgreina sig með hlutlausri kynskráningu. Einnig sagði forsætisráðherra frá nýju frumvarpi sem tryggir rétt barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Hún ræddi um þróun jafnlaunavottunar og næstu skref í þeim málum og fór yfir aðgerðir til að dýpka umræðu um kynferðislega áreitni og ofbeldi og fylgja eftir áhrifum #metoo hreyfingarinnar. Þá minntist forsætisráðherra á forvarnaráætlun gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni hér á landi, ásamt áætlun fyrir árin 2021 – 2025, sem Alþingi hefur samþykkt.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:
„Við sjáum alltof víða bakslag í jafnréttismálum á heimsvísu og ein af fjölmörgum afleiðingum heimsfaraldursins hafa verið mál þar sem vegið er að velferð og öryggi kvenna. Því er sérstaklega mikilvægt nú að ræða þessi mikilvægu mál, jafnréttismálin, og efla samvinnu í þeim efnum. Þau mega ekki mæta afgangi þótt verið sé að kljást við heimsfaraldur.“
Tveir gestir ávörpuðu fundinn, þær Emma Holten, sérfræðingur á sviði jafnréttismála hjá Oxfam IBIS í Danmörku og Petra Laiti, aðgerðarsinni af samískum uppruna og forseti Ungmennahreyfingar Sama. Þær ræddu áherslur ungmenna í jafnréttismálum í samhengi við Pekingáætlunina, framkvæmdaáætlun Sameinuðu þjóðanna í jafnréttismálum.