Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2020 Matvælaráðuneytið

Nýsköpunarráðstefna um tækifæri Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna á Indlandi

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra - mynd

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, ávarpaði í morgun netráðstefnuna „An Innovation-driven Partnership for Growth in a New World“ um viðskiptatækifæri og samstarfsmöguleika Norðurlanda og Eystrasaltsríkja á Indlandi.
 
Ráðstefnan var haldin af utanríkisráðuneyti Indlands og samtaka iðnaðar á Indlandi, Confederation of Indian Industries.
 
Á ráðstefnunni voru rædd viðskiptatækifæri á sviði nýsköpunar á milli Indlands, Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Var einkum rætt um tækifæri á sviði endurnýjanlegrar orku, tækni, upplýsingaöryggis, gervigreindar, bláa hagkerfisins og fleira.
 
Ráðherra ræddi árangur íslenskra nýsköpunarfyrirtækja, m.a. þeirra sem héldu kynningar á ráðstefnunni, áherslu íslenskra stjórnvalda á samkeppnishæft starfsumhverfi fyrir nýsköpunarfyrirtæki og mikilvægi þess að byggja upp tengingar og samstarfsmöguleika til annarra ríkja. 
 
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýsköpunarráðherra: 
„Við vitum að við Íslendingar verðum að styrkja innviði okkar með tilliti til stafrænnar þróunar og gervigreindar. Við sjáum dýrmæt tækifæri fólgin í samstarfi við önnur ríki, bæði við nágranna okkar á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum, en einnig með öðrum ríkjum sem deila með okkur sterkum tækniinnviðum og sýn á hvernig má þróa og innleiða nýja tækni. Gott dæmi um það er X-Road, verkefni sem nú er verið að innleiða á Íslandi að eistneskri og finnskri fyrirmynd og snýr að öruggum gagnaflutningum á milli stofnanna.“
 
Fundinn ávörpuðu einnig ráðherrar frá Eistlandi, Finnlandi, Indlandi, Lettlandi og Svíþjóð. Fulltrúar íslensks atvinnulífs kynntu einnig starfsemi sína, meðal annars þau Aðalheiður Pálmadóttir þróunarstjóri Controlant, Árni Oddur Þórðarson forstjóri Marel, Davíð Þórisson forstjóri Leviosa, Ingólfur Guðmundsson, forstjóri CRI og Þór Sigfússon frá Sjávarklasanum. 

Hér má finna ræðu ráðherra. 

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta