Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Tryggja þolendum ofbeldis aðstoð

Frá undirrituninni - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, og Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, skrifuðu í vikunni, ásamt fulltrúum frá embætti landlæknis, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Landspítala, undir styrkveitingu upp á 62,2 milljónir króna til verkefna með það að markmiði að tryggja þolendum, aðstandendum og gerendum ofbeldis fjölbreyttar leiðir til að leita aðstoðar og sjá til þess að það fái í framhaldinu viðeigandi þjónustu og stuðning.   

Verkefnin eru eftirfarandi:

  • Vefútfærsla á hugrænni úrvinnslumeðferð við áföllum í samvinnu sálfræðiþjónustu geðdeildar Landspítala Háskólasjúkrahúss, Miðstöðvar rafrænna heilbrigðislausna hjá Embætti landlæknis og Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu.
  • Fræðsla um foreldrafærni, sem stendur öllum foreldrum til boða fyrir fæðingu barns og fyrstu 1.000 daga lífs þess, verður efld enn frekar í gegnum heilsuvera.is. Áhersla verður á að efla færni foreldra og draga þannig úr líkum á vanrækslu, misnotkun og ofbeldi gegn börnum.  Hugað verður sérstaklega að foreldrum og börnum í viðkvæmri stöðu.
  • Rafrænir verkferlar við heimilisofbeldi til að bæta verklag og viðbrögð heilbrigðisstarfsmanna. Verkferlar og viðbrögð heilbrigðisstarfsfólks til að bregðast við einkennum heimilisofbeldis verða bættir með því að útbúa rafrænan verkferil vegna heimilisofbeldis í Heilsuveru, hjá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu og sjúkraskrárkerfinu.

Styrkirnir er afurð vinnu aðgerðateymis skipuðu af  félags- og barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra í þeim tilgangi að stýra og samræma vinnu við útfærslu aðgerða gegn ofbeldi á tímum efnahagsþrenginga og áfalla. Reynsla af faröldrum síðustu áratuga, og reynsla síðustu mánaða um allan heim, hefur sýnt að börn eru í aukinni hættu á að sæta vanrækslu, ofbeldi, misnotkun og félagslegri útilokun í kjölfar samkomubanns eða lokunar skóla. Þá hefur orðið töluverð aukning á heimilisofbeldi í kjölfar faraldursins og hafa áhrif Covid-19 teygt sig til  barna og fjölskyldna langt umfram þá sem sýkst hafa.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Á undanförnum mánuðum hefur Covid-19 faraldurinn haft gríðarleg áhrif á líf okkar allra. Álag og streita sem getur skapast í tengslum við samkomutakmarkanir, efnahagslegar áskoranir og takmarkaðra aðgengi að stuðningskerfum, ásamt skertu samneyti við vini og fjölskyldumeðlimi, getur því miður leitt til aukins heimilisofbeldis og ofbeldis gegn börnum. Það er mikilvægt að við auðveldum aðgengi að hjálpinni og auðveldum heilbrigðisstarfsfólki að bregðast við með þeim verkfærum sem í boði eru.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra: „Fyrirbyggjandi aðgerðir gegn ofbeldi eru afar mikilvægar. Þær ná ekki aðeins til þeirra sem eru gerendur í dag heldur einnig til þeirra sem orðið hafa fyrir ofbeldi og draga úr líkum á því að þeir verði sjálfir gerendur síðar. Styrkveitingin nú beinist að slíkum þáttum en einnig og ekki síður að því að auðvelda aðgengi að þjónustu í gegnum stafrænar lausnir sem auka bæði þjónustuna og skilvirkni hennar. Það er mikilvægt framfaraskref í nútímasamfélagi.“

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra: „Heimilisofbeldi og afleiðingar þess eru alvarlegt heilbrigðisvandamál sem oft er dulið. Því skiptir miklu að heilbrigðisstarfsfólk hafi þekkingu til að greina einkenni heimilisofbeldis og leiðbeina þolendum þannig að þeir fái þá hjálp sem þeir þurfa. Aukin fræðsla og símenntun, skýrir verkferlar og bætt skráning eru allt þættir sem geta haft mikil áhrif í þessa veru. Þetta eru vandasöm og viðkvæm mál en að sama skapi mikilvæg og starfsfólk í heilbrigðisþjónustu gegnir þar mikilvægu hlutverki.“

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta