Heimsóknir á CIIE og fundur með IBF
Starfsfólk sendiráðs Íslands í Peking sótti hina árlegu innflutningskaupstefnu CIIE (China International Import Expo) í Shanghai á dögunum. Ferðin var einnig nýtt til þess að sækja ráðstefnur um netverslun, sjálfbærni og viðskipta- og efnahagsmál, funda með kínverskum yfirvöldum um norðurslóðamál, funda með kínverskum fyrirtækjum og einstaklingum úr kínversku viðskiptalífi með tengsl við Ísland. Jafnframt hitti starfsfólkið fyrir nokkra íslenska námsmenn í borginni.
Þrátt fyrir að kínversk yfirvöld hafi náð góðum tökum á faraldrinum þá var ljóst frá upphafi að kaupstefnan í ár yrði með öðru sniði en gengur og gerist. Kaupstefnan er ætluð innflutningsaðilum, en eðli máls samkvæmt gátu mörg fyrirtæki ekki sent fulltrúa til Kína í ár. Hið sama var upp á teningnum hjá íslenskum fyrirtækjum, en þó eiga mörg íslensk fyrirtæki starfsfólk, fulltrúa, samstarfs- og/eða dreifingaraðila í Kína og gátu því nýtt tækifærið.
Á kaupstefnunni var sérstakur kynningarbás fyrir íslenskar matar- og drykkjavörur. Þar kynntu fyrirtækin Eimverk (Flóki), KeyNatura (SagaNatura), WhyKing, Life Iceland (Yggdrasill) og IS Seafood vörur sínar við góðar undirtektir gesta kaupstefnunnar.
Þá var fyrirtækið Bioeffect einnig með kynningarbás á öðru svæði tileinkað snyrti- og húðvörum. Fulltrúar sendiráðsins ræddu við fulltrúa íslensku fyrirtækjanna og gesti kaupstefnunnar. Þá sat sendiherrann fyrir svörum í nokkrum sjónvarpsviðtölum og lagði þar áherslu á mikilvægi utanríkisviðskipta, mikilvægi kaupstefna eins og CIIE og nýtti tækifærið til að kynna land og þjóð fyrir kínverskum neytendum. Hinn 6. nóvember bauð sendiherrann meðlimum IBF (Icelandic Business Forum) í Shanghai á fund og til kvöldverðar.
Fréttir síðustu daga af starfsemi sendiráðsins má sjá hér: