Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ísland að undirbúa hertar kröfur í loftslagsmálum

  - myndHaraldur Jónasson / Hari

Ísland undirbýr nú hert markmið innan ramma Parísarsamningsins, að því að Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra sagði á málþingi Loftslagsráðs og breska sendiráðsins í dag. Aðgerðaáætlun stjórnvalda, sem kynnt var fyrr á þessu ári, gerir ráð fyrir meiri samdrætti í losun en gerð er krafa um í núverandi skuldbindingum Íslands. Hún er því góður grunnur til að byggja á. Þá styðja mótvægisaðgerðir gegn Covid-faraldrinum við græna og loftslagsvæna endurreisn. Ísland og önnur ríki munu þurfa að herða loftslagsmarkmið sín til að ná markmiðum Parísarsamningsins.

Ráðherra hélt erindi á málþinginu, sem fjallaði um stöðu mála í loftslagsmálum í ljósi Covid-19 og endurbyggingar í kjölfar faraldursins og væntanlegs loftslagsþings Sameinuðu þjóðanna (COP 26) í Glasgow. Halda átti þingið nú í nóvember, en því hefur verið frestað um eitt ár vegna ástandsins. COP 26 er að margra mati mikilvægasta þing Loftslagssamnings S.þ. síðan Parísarsamningurinn var samþykktur 2015. Þar á að ræða uppfærslu á losunarmarkmiðum ríkja, í ljósi þess að núverandi markmið duga ekki að mati vísindamanna til að halda hlýnun innan við 2°C og leita leiða til að halda hlýnun innan við 1,5°C.

Guðmundur Ingi sagði Ísland styðja aukinn metnað á heimsvísu í loftslagsmálum og að Ísland væri reiðubúið að leggja sitt af mörkum. Stór skref hefðu verið stigin á sl. 3 árum, s.s. með samþykkt nýrrar og metnaðarfullrar aðgerðaáætlunar og stórfelldri aukningu í opinberum framlögum til loftslagsmála, samstarfi við atvinnulíf, styrkingu stjórnsýslu, rannsókna og nýsköpunar. Íslensk stjórnvöld hefðu nú öflug stjórntæki til að ná árangri og væru vel í stakk búin til að mæta auknum kröfum.

Hlutverk Íslands í loftslagsmálum í alþjóðlegu samhengi var einnig til umræðu á málþinginu. Sagði ráðherra Ísland, í krafti smæðar sinnar, geta brugðist hraðar við en mörg önnur ríki og þannig sett gott fordæmi á mikilvægum sviðum sem hægt sé að vinna áfram á stærri skala.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta