Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Skýrsla um aukna framleiðni og gæði heilbrigðisþjónustu

Frá fundi heilbrigðisráðherra með forstjórum og fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins - mynd

Heilbrigðisráðuneytið kynnir nýja skýrslu sem fjallar um innleiðingu á nýju fjármögnunarkerfi heilbrigðisþjónustu og notkun leiðbeinandi viðmiða til að auka framleiðni og gæði. Byggt er á viðamikilli greiningu á mönnun og framleiðni heilbrigðisþjónustunnar hér á landi í erlendum samanburði sem fyrirtækið McKinsey gerði fyrir ráðuneytið og nær til stærstu heilbrigðisstofnananna í landinu. Heilbrigðisráðherra fundaði með forstjórum stofnananna um skýrsluna í dag þar sem rætt var um  hvernig best megi nýta niðurstöðurnar og hrinda ákvörðun um breytta fjármögnun heilbrigðiskerfisins í framkvæmd.

Greiningin sem skýrslan byggist á er liður í framkvæmd heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Í heilbrigðisstefnunni eru sett fram markmið um aðgerðir til að tryggja sem best mönnun heilbrigðisþjónustunnar til framtíðar. Jafnframt er í heilbrigðisstefnunni sett markmið um að tryggja skilvirkari kaup hins opinbera á heilbrigðisþjónustu. Í samræmi við það hefur verið ákveðið að innleiða þjónustutengt fjármögnunarkerfi sem byggist á alþjóðlega flokkunarkerfinu DRG við kaup á allri sjúkrahúsþjónustu og sambærilegri þjónustu sem veitt er í einkarekstri utan sjúkrahúsa. Þessi markmið heilbrigðisstefnunnar eru nátengd og er í skýrslunni fjallað um þau bæði, þ.e. annars vegar mönnunarþáttinn og hins vegar um breytta fjármögnun.

Í skýrslunni er fjallað um aðgengi að heilbrigðisþjónustu, mönnun heilbrigðiskerfisins og kaup á heilbrigðisþjónustu. Markmiðið var að greina hvar tækifæri eru til úrbóta. Skoðuð voru gögn yfir fimm ára tímabil frá Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Til samanburðar voru skoðuð sambærileg gögn frá heilbrigðisstofnunum á Skáni í Svíþjóð og þau sett fram sem leiðbeinandi viðmið (e. benchmarking) þar sem þau geti falið í sér raunhæf markmið fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi. Á Skáni eru fá sjúkrahús staðsett í helstu borgum umdæmisins og þjónustusvæðin eru stór. Í þessu felast ákveðin líkindi við íslenskar aðstæður.

Tækifæri felast í endurskoðun mönnunar og  breyttu fyrirkomulagi fjármögnunar

Í greiningu McKinsey er bent á ýmis atriði sem eru frábrugðin hér á landi miðað við saman­burðarstofnanirnar erlendis. Þar má nefna lengri legutíma hjá íslensku sjúkra­húsunum, ólíkar áherslur í samsetningu mönnunar og minnkandi framleiðni frá árinu 2015. Skilja má skýrslu McKinsey á þá leið að verði þessir hlutir lagfærðir muni það leiða til sparnaðar. Ráðuneytið vill aftur á móti taka skýrt fram að megintilgangur þessa verkefnis snýst um að nýta fjármuni sem best með skilvirkri mönnun heilbrigðiskerfisins sem samræmist þörfum þess og er sambærileg við það besta sem gerist erlendis.

Á síðustu misserum hefur verið gert átak í fjölgun hjúkrunarrýma, heimahjúkrun hefur verið efld og aukin ásamt fleiri stuðningsúrræðum sem auka möguleika fólks til að búa heima þrátt fyrir veikindi og skerta getu. Þetta skiptir miklu máli og dregur úr innlögnum og langri legu fólks á sjúkrahúsum sem betur má sinna í öðrum úrræðum. Námsstöðum hjúkrunarfræðinga hefur einnig verið fjölgað umtalsvert og ásókn í hjúkrunarnám fer vaxandi. Einnig er unnið að því að efla nám sjúkraliða og fjölga í stéttinni. Mikilvægt er að halda áfram á þessari braut, en þetta eitt og sér dugir ekki til. Skoða þarf fleiri leiðir sem styrkja sjúkrahúss­þjónustuna og eins og bent er á í þessari skýrslu er endurskoðun mönnunar og breytt fjármögnun þjónustunnar mikilvægur liður í þeirri viðleitni.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta