Fjölsóttur fundur um viðskiptamál og stuðning við atvinnulíf í heimsfaraldri
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hélt fjölsóttan fjarfund um viðskiptamál og stuðning við atvinnulífið í gær. Fundurinn var haldinn í samvinnu við Íslandsstofu og Samtök atvinnulífsins, en auk Guðlaugs Þórs tóku Bergþóra Halldórsdóttir, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Íslandsstofu, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins til máls. Á annað hundrað þátttakenda skráðu sig til fundarins, sem var haldinn á Teams.
Á fundinum var fjallað um nýjungar sem utanríkisráðuneytið hefur ráðist í til stuðnings við íslenskt atvinnulíf, einkum á tímum Covid-19. Aðgerðirnar grundvallast á skýrslunni Saman á útivelli en nú þegar hefur m.a. verið sett í framkvæmd sérstök viðskiptavakt, sólarhringsvakt fyrir íslenskan útflutning þar sem fyrirtæki geta leitað til utanríkisþjónustunnar komi upp neyðartilvik utan almenns afgreiðslutíma.
„Á tímum sem þessum er mikilvægt að snúa bökum saman. Við í utanríkisráðuneytinu gerum lítið upp á eigin spýtur heldur eigum við í virkri samvinnu við önnur ráðuneyti og atvinnulífið. Samstarf við fyrirtækin í landinu skiptir okkur í utanríkisráðuneytinu öllu máli þegar kemur að næstu skrefum í þróun og framkvæmd á utanríkisviðskiptastefnu Íslands,“ sagði Guðlaugur Þór eftir fundinn.
Halldór Benjamín tók undir sjónarmið Guðlaugs Þórs um að samstarf ráðuneytisins við fyrirtækin í landinu skipti sköpum.
„Atvinnulífið á mikið undir því að utanríkisráðuneytið hafi virkt samráð þegar mikið liggur við. Sú hefur verið raunin undanfarin misseri í fjölmörgum málum þar sem miklir hagsmunir eru í húfi. Ég nefni sem eitt dæmi af mörgum framtíðarfyrirkomulag viðskiptasambands Íslands og Bretlands eftir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Íslendingar flytja út vörur til Bretlands fyrir um 70 milljarða króna á ári og til landsins fyrir um 40 milljarða. Það samsvarar um 10% af útflutningsverðmætum landsins og 5% af innflutningi. Það er því beinlínis nauðsynlegt að rödd atvinnulífsins heyrist hátt og snjallt þegar svo mikið er undir samningum,“ sagði Halldór Benjamín að fundinum loknum.
Þá var þjónustuborð atvinnulífsins, sem nú er unnið að setja á fót í samstarfi Íslandsstofu og utanríkisráðuneytisins kynnt. Markmið þjónustuborðsins er m.a. að efla þátt atvinnulífsins í þróunarsamvinnu. Þar geta fyrirtæki sótt upplýsingar um fjölþjóðlega sjóði sem koma að fjármögnun þróunarverkefna og bæta kjör fólks í þróunarlöndum og víðar.
„Það hefur verið erfitt fyrir íslensk fyrirtæki að nálgast upplýsingar um og fá yfirsýn yfir þau tækifæri sem eru aðgengileg í gegnum alþjóðlega uppbyggingarsjóði. Við vonumst til þess að með nýju þjónustuborði verði hægt að einfalda og bæta þessa upplýsingagjöf til muna og greiða aðgang íslenskra fyrirtækja að þeim tækifærum sem stjórnvöld skapa með þátttöku í alþjóðlegri samvinnu,“ sagði Bergþóra Halldórsdóttir.
Á fundinum var jafnframt var fjallað um Samstarfssjóð við atvinnulíf um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem auglýsti sína fjórðu úthlutun á dögunum. Einnig voru til umræðu frekari möguleikar fyrir íslensk fyrirtæki í tengslum við þróunarsamvinnu.
Þetta er ekki eini fjölsótti fundurinn sem Guðlaugur Þór hefur staðið fyrir í vikunni því í hádeginu á miðvikudag efndi hann til opins fyrirspurnatíma í beinu vefstreymi á Facebook. Fjölmargir fylgdust með fundinum og sendu spurningar um ýmis málefni, meðal annars útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, þróunarsamvinnu Íslands og gervihnattamál.
Fund utanríkisráðuneytisins, Samtaka atvinnulífsins og Íslandsstofu má sjá hér:
Fyrirspurnatíma ráðherra á Facebook má sjá hér: