Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2020 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Úttekt á samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi með tilliti til raforkukostnaðar

Þýska fyrirtækið Fraunhofer hefur að beiðni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins gert úttekt á samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi með tilliti til raforkukostnaðar.

Meginniðurstaðan er að raforkukostnaður stórnotenda á Íslandi skerði almennt ekki samkeppnishæfni þeirra gagnvart samanburðarlöndunum, sem eru Noregur, Kanada (Quebec) og Þýskaland.

Tímamótaúttekt byggð á aðgangi að trúnaðarupplýsingum

Ekki hefur áður verið gerð sambærileg óháð úttekt á samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi, byggð á aðgangi að trúnaðarupplýsingum um raunverulegt orkuverð í einstökum orkusölusamningum.

Fraunhofer fékk við gerð skýrslunnar aðgang að trúnaðarupplýsingum um raforkusamninga orkuframleiðenda og stórnotenda á Íslandi. Langflestir aðilar sem leitað var til veittu aðgang að umbeðnum upplýsingum og allir stórnotendur utan einn veittu upplýsingar um raforkuverð sitt. Samið var um trúnað við veitingu upplýsinganna og samráð var haft við Samkeppniseftirlitið um verklagið.

Það gefur augaleið að vandasamt er að birta niðurstöðurnar á þann hátt að þær varpi nýju og skýru ljósi á álitaefnið án þess að brjóta gegn trúnaðarákvæðum orkusamninga. Meðaltöl segja aðeins hálfa söguna en á sama tíma er ekki unnt að birta verð einstakra samninga. Því var haft samráð við alla aðila um framsetningu niðurstaðna. Fram komu athugasemdir um fyrirhugaða framsetningu á orkukostnaði álvera og var tekið tillit til þeirra.

 

Samanburður við Noreg, Kanada (Quebec) og Þýskaland

Í skýrslunni er raforkukostnaður stóriðju á Íslandi borinn saman við Þýskaland, Kanada (Quebec) og Noreg.

Við samanburðinn er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur því að Noregur og Kanada eru þau lönd á Vesturlöndum þar sem stóriðja stendur einna best að vígi í alþjóðlegum samanburði, t.a.m. er álframleiðsla á Vesturlöndum hvergi meiri en þar.

Samanburðurinn innifelur alla helstu þætti sem hafa áhrif á raforkukostnað, nánar tiltekið: orkuverð, flutningskostnað raforku, skatta og gjöld og endurgreiðslur vegna kolefniskostnaðar þar sem þær eiga við. Samanburðurinn miðast við nýjustu samanburðarhæfu upplýsingar, sem er raforkukostnaður árið 2019.

Helstu niðurstöður

  • Raforkukostnaður stórnotenda á Íslandi er breytilegur eftir atvinnugreinum og tegund orkusamninga en raforkukostnaður stóriðju á Íslandi skerðir almennt ekki samkeppnishæfni hennar gagnvart samanburðarlöndunum
  • Raforkukostnaður álvera á Íslandi er almennt samkeppnishæfur við Kanada og Noreg og lægri en í Þýskalandi
  • Raforkukostnaður gagnavera á Íslandi er almennt um þrisvar sinnum lægri en í Þýskalandi, svipaður og í Noregi og heldur hærri en í Kanada þó að einstakir samningar á Íslandi kunni að vera svipaðir og í Kanada
  • Raforkukostnaður annarra stórnotenda (en álvera og gagnavera) á Íslandi er almennt ívið lægri en í Þýskalandi en ívið hærri en í Noregi og Kanada en fremur fá dæmi voru á bak við þann samanburð

„Þýðingarmikið og upplýsandi innlegg,“ að sögn ráðherra

Þessi úttekt er þýðingarmikið og upplýsandi innlegg í umræðu sem snertir stórfellda hagsmuni fyrir bæði íslenskt efnahagslíf, íslensk fyrirtæki og einstök byggðarlög,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

„Ég óskaði eftir skýrslunni í febrúar sl. vegna vaxandi umræðu um samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi með tilliti til raforkuverðs. Leyndin sem hvílir yfir raforkusamningum stórnotenda hefur augljóslega hamlað þeirri umræðu, auk þess sem ítarleg athugun á raunverulegum raforkukostnaði stóriðju í öðrum löndum hefur ekki legið fyrir.

Það er mikilvægt að fá það fram að raforkukostnaður stórnotenda á Íslandi er almennt sambærilegur eða lægri en í samanburðarlöndunum þó að dæmi séu um bæði lægri og hærri verð. Við vitum að stóriðja á Vesturlöndum hefur átt undir högg að sækja gagnvart öðrum heimshlutum, auk þess sem aðstæður á heimsmarkaði hafa verið erfiðar. Það dettur engum í hug að gera lítið úr þeim áskorunum. Auk þess eru orkusamningar ólíkir og misjafnlega hagfelldir kaupendum. En það er jákvætt að raforkukostnaður stórnotenda hér er almennt samkeppnishæfur, jafnvel þegar miðað er við þau lönd sem þykja bjóða upp á eitthvert hagfelldasta starfsumhverfi á Vesturlöndum.

Ég hef lengi talað fyrir auknu gagnsæi um orkusamninga enda er óæskilegt að umræða um svo stórfellda hagsmuni byggi á litlum upplýsingum. Það er fyrst og fremst samningsaðilanna sjálfra að leita leiða til að bæta úr því og ég vonast áfram til þess að þeir sjái sér fært að stíga einhver skref í þá átt.

Við þurfum auðvitað að halda vöku okkar og stuðla að eins samkeppnishæfu umhverfi og mögulegt er, til að tryggja að við getum áfram nýtt þau tækifæri sem felast í endurnýjanlegum orkuauðlindum. Skýrslan bendir til að við þurfum mögulega að huga að flutningskostnaði og ég hef ákveðið að setja af stað vinnu til að greina þann þátt betur. Einnig getur aukið framboð á raforku gegnt lykilhlutverki við að lækka verð sem og aukið gagnsæi og aukin samkeppni á orkumarkaði,“ segir Þórdís Kolbrún.

Um Fraunhofer

Fraunhofer er eitt stærsta rannsóknarfyrirtæki Evrópu með um 28 þúsund starfsmenn og hefur unnið margar úttektir fyrir þýsk stjórnvöld og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Fraunhofer ISI hefur víðtæka reynslu af sambærilegum greiningum og þessari. Fyrirtækið vann til að mynda árið 2016 skýrslu um alþjóðlega samkeppnishæfni stóriðju í Noregi út frá raforkukostnaði og álíka skýrslu nokkrum árum áður um samanburð Þýskalands við önnur lönd. Sami aðili hjá Fraunhofer hafði yfirumsjón með þeim skýrslum og skýrslunni um Ísland.

Hér má nálgast skýrsluna

 

Verið er að þýða skýrsluna yfir á íslensku og verður hún aðgengileg á næstu dögum. 

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
7. Sjálfbær orka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta