Fjölmiðlafrelsi og trúfrelsi í brennidepli á ráðherrafundum
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra ávarpaði tvo ráðherrafundi um mannréttindamiðuð málefni í dag, annars vegar fund á vegum ríkjabandalags um fjölmiðlafrelsi, hins vegar fund um trúfrelsi.
Fjölmiðlafrelsisbandalagið (e. Media Freedom Coalition) var myndað á síðasta ári í framhaldi af alþjóðlegri ráðstefnu um fjölmiðlafrelsi sem haldin var í Lundúnum. Í ávarpi sínu á fjarfundi þess í dag lagði Guðlaugur Þór áherslu á öryggi fjölmiðlafólks og lýsti áhyggjum sínum af árásum á það um allan heim, sem og tilraunum til að kæfa lýðræðislega umræðu með öðrum hætti. Nefndi hann sérstaklega áhrif heimsfaraldursins á þetta málefni.
„Það eru því miður merki um að sumar ríkisstjórnir hafi notað heimsfaraldurinn til að koma höggi á fjölmiðla, borgaralegt samfélag, opna umræðu, og þjarma að frelsi og lýðræðislegum gildum. Við verðum að spyrna gegn þessari þróun hvarvetna, mæta þeim sem ganga fram með slíkum hætti og finna nýjar leiðir til mæta áskorunum sem þessu fylgja“ sagði Guðlaugur Þór.
Ísland er eitt 37 ríkja sem gerst hafa aðilar að bandalaginu en markmið þess er að efla aðgerðir til að sporna við auknum árásum á fjölmiðlafólk um allan heim, varpa ljósi á mál sem bregðast verður við og styðja ríki sem vilja stíga skref í átt að auknu fjölmiðlafrelsi. Var fundurinn að þessu sinni fyrsti formlegi ráðherrafundur bandalagsins en Kanada og Botsvana höfðu veg og vanda af skipulagningunni.
Opinber yfirlýsing samstarfsríkja bandalagsins var birt í lok fundarins og er hana að finna hér.
Í dag tók Guðlaugur Þór einnig þátt í ráðherrafundi um trú- og lífskoðanafrelsi. Markmið fundarins, sem einnig fór fram í gegnum fjarfundarbúnað og var streymt beint á netinu, var að gefa ráðherrum tækifæri til að eiga samtal um þau málefni sem eru mikilvægust og efst á baugi í tengslum við trúar- og lífskoðanafrelsi á heimsvísu. Pólverjar skipulögðu fundinn.
Í ávarpi sem Guðlaugur Þór flutti á fundinum lagði hann áherslu á að trúfrelsi og tjáningarfrelsi væru grundvallarmannréttindi sem standa þyrfti vörð um og að hafna bæri ofbeldi sem framið væri í nafni trúarbragða. Benti hann á að kristnu fólki væri síst hlíft við ofsóknum á grundvelli lífsskoðana sinna, líkt og nýlegar árásir í Evrópu bæru vott um. Ljóst væri að sum stjórnvöld skákuðu í skjóli COVID-19 til að skerða réttindi borgara sinna, en mikilvægt væri að trúfrelsi, líkt og önnur mannréttindi, væri virt þrátt fyrir neyðarviðbrögð vegna heimsfaraldursins.
Alls tóku 60 ríki og fjölþjóðastofnanir þátt í ráðstefnunni, þar af 27 ráðherrar. Hún heldur áfram á morgun með þátttöku félagasamtaka.