Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2020 Innviðaráðuneytið

Jöfnunarsjóður varinn með sértækum aðgerðum ríkisstjórnar

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flytur ávarp á ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í dag. - mynd

Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga var haldinn í dag en vegna aðstæðna í samfélaginu var hann í fyrsta skipti haldinn rafrænt. Samhliða fundinum var ársskýrsla sjóðsins fyrir rekstrarárið 2019 gefin út. Heildarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga námu tæpum 49,8 milljörðum króna árið 2019. 

Framlög Jöfnunarsjóðs skiptast í bundin framlög, sérstök framlög, jöfnunarframlög, jöfnunarframlög til reksturs grunnskóla og jöfnunarframlög vegna málefna fatlaðra. Framlög vegna málefna fatlaðra námu tæplega 18,8 milljörðum á árinu en næst á eftir komu jöfnunarframlög vegna grunnskóla sem námu tæplega 12,6 milljörðum.

Í ávarpi sínu kvaðst Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skilja áhyggjur sveitarstjórnarfólks af fjárhag sveitarfélaga. Ráðherra sagði að ríkisstjórnin muni standa að baki sveitarfélögum eins og frekast væri unnt svo starfsemi þeirra raskist ekki um of á komandi mánuðum og misserum. Þessi afstaða hafi komi skýrt fram í yfirlýsingu í tengslum við undirritun á samningi milli ríkis og sveitarfélaga um opinber fjármál. Beinn stuðningur samkvæmt yfirlýsingunni nemi um 3,3 milljörðum, en til viðbótar væri heimilt að nýta 1,5 milljarða úr Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs til almennra framlag sjóðsins.

„Ríkisstjórnin lítur á þennan stuðning sem mikilvægt skref í þeirri vegferð að styðja við bakið á sveitarfélögunum. Við eigum sjálfsagt eftir að bæta ýmsu við en mikilvægt er að allar slíkar ákvarðanir byggi á yfirvegun og góðri greiningu,“ sagði ráðherra. Hann sagði þó ekki unnt að fara í almennar aðgerðir sem dreifa peningum úr ríkissjóði til sveitarfélaga án tillits til getu þeirra til að standa sjálf undir sínum lögbundnu skyldum. Það væri óábyrgt eins og staðan væri núna hjá ríkissjóði. 

Jöfnunarsjóðurinn varinn

Sigurður Ingi sagði að með sértækum aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna fjárhagslegrar stöðu sveitarfélaganna hafi tekist að verja stöðu Jöfnunarsjóðs á þessu ári. 

Ráðherra vakti athygli á því almennt væru útsvar og fasteignaskattar að aukast að nafnvirði á milli 2019 og 2020. Útsvarið hafi til að mynda hækkað sem gæfi til kynna að umfangsmiklar aðgerðir ríkisins væru að skila miklum ávinningi fyrir sveitarfélögin.  

Sigurður Ingi hvatti sveitarfélög eindregið til að halda fjárfestingaráformum til streitu til að tryggja að hjól atvinnulífsins snúist í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar um að hvetja til fjárfestinga hins opinbera. „Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar ber með sér eina mestu fjárfestingaráætlun sem sögur fara af, t.d. á sviði samgangna. Við þekkjum líka metnaðarfulla áætlun um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu en þar verður 120 milljörðum varið til þess verkefnis á næstu árum, í góðu samstarfi ríkis og sveitarfélaga,“ sagði ráðherra.

Sigurður Ingi kynnti þá hugmynd að ríki og sveitarfélög gætu tekið höndum saman um tiltekin fjárfestingarverkefni sem væru arðbær og skiluðu samfélaginu augljósum ávinningi til langs tíma. „Það gæti t.d. verið stórátak í uppbyggingu hjúkrunarheimila, uppbygging leik- og grunnskóla, enn frekari aukning í uppbyggingu hagkvæms íbúðarhúsnæðis t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu og til arðbærra umhverfisverkefna,“ sagði ráðherra.

Ráðherra harmar kröfu Reykjavíkurborgar

Sigurður Ingi sagði að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga gegndi mikilvægu hlutverki og að hlutverk hans samkvæmt lögum væri að jafna útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum. Þetta væri samtryggingarsjóður sveitarfélaganna. Margs konar umbætur hafi verið gerðar á sjóðnum á umliðnum árum en megintilgangur hans væri að jafna aðstöðu og afkomu sveitarfélaga.

Ráðherra sagði að það hafi verið áfall þegar galli í lagasetningu hafi leitt til þess að fimm tekjuhæstu sveitarfélög landsins fengu úthlutað framlögum sem þau augljóslega höfðu ekki þörf fyrir. Úr þessum ágalla hafi verið bætt snarlega af Alþingi og þar með er betur tryggt að tekið er mið af tekjumöguleikum einstakra sveitarfélaga við úthlutun framlaga.

Ráðherra sagði að það hafi því komið honum í opna skjöldu og mörgu sveitarstjórnarfólki þegar Reykjavíkurborg hafi sent ríkinu kröfu upp á 8,7 milljarða króna á þeim forsendum að reiknireglur um framlög Jöfnunarsjóðs á árunum 2015-2019 hafi ekki átt skýra lagastoð. Hann sagði að kröfunni hafi að sjálfsögðu verið hafnað af hálfu ríkisins og þess óskað að hún yrði dregin til baka.

„Mikilvægt er að borgarfulltrúar í Reykjavík sem og allt sveitarstjórnarfólk geri sér grein fyrir því að þessari kröfu er ekki beint gegn ríkissjóði, henni er beint gegn sveitarfélögunum í landinu. Ríkissjóður borgar ekki kröfur sem verða dæmdar á ríkissjóð vegna Jöfnunarsjóðs, það verður Jöfnunarsjóður að gera sjálfur. Við sjáum dæmi þess í fyrirliggjandi ársreikningi sjóðsins, en þar er bókfærð skuld sjóðsins við ríkissjóð vegna dóms Hæstaréttar,“ sagði ráðherra í ræðu sinni og hvatti borgina til að draga kröfuna til baka.

„Ég lýsi mig reiðubúinn til að setjast niður með fulltrúum allra sveitarfélaganna í landinu til að ræða endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga og ekki síst Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. En það verður að vera með jöfnuð og þarfir alls landsins að meginmarkmiði,“ sagði Sigurður Ingi að lokum.

Rætt um áhrif Covid-19 

Á fundinum gerði Guðni Geir Einarsson, sérfræðingur hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, grein fyrir ársreikningi sjóðsins og fjárhagsstöðu hans. Þá fjallaði Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar um áhrif Covid-19 á sveitarfélögin og helstu áskoranir þeirra vegna faraldursins. Þá flutti Gunnar Haraldsson, formaður samráðshóps um fjármál sveitarfélaga fyrirlestur um greining á fjármálum sveitarfélaga í kjölfar Covid-19.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta