Heimildir til hjálpartækjakaupa vegna tiltekinna ólæknandi sjúkdóma verða ævilangar
Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að Sjúkratryggingum Íslands sé heimilt að ákveða að innkaupaheimildir gildi ótímabundið fyrir einstaklinga með ævilangt sjúkdómsástand, eins og t.d. fyrir einstaklinga með sykursýki 1. Þessi heimild var aðeins gefin út með 5 – 10 ára gildistíma en nú er búið að breyta til hagræðis fyrir alla sem hlut eiga að máli. Reglugerð ráðherra þessa efnis hefur tekið gildi.
Sykursýki 1 greinist aðallega hjá börnum og ungu fólki, einkennist af bráðum insúlínskorti og er ólæknandi. Þeir sem greinast með sjúkdóminn þurfa að fylgjast náið með blóðsykrinum, mæla hann reglulega og sprauta sig daglega með insúlíni alla ævi. Dæmi um nauðsynleg hjálpartæki vegna þessa eru blóðstrimlar, nálar og blóðhnífar. Til þessa hafa Sjúkratryggingar Íslands einungis getað samþykkt innkaupaheimildir vegna búnaðar sem þessa til 10 ára í senn, samkvæmt reglugerð um styrki vegna hjálpartækja, þrátt fyrir að sykursýki 1 sé ólæknandi sjúkdómur. Með reglugerðarbreytingu sem ráðherra hefur ákveðið verður unnt að veita heimildina ævilangt.