Vöktun áhrifa COVID-19 á lýðheilsu og geðheilbrigði landsmanna
Svandís Svavarsdóttir hefur ákveðið að skipa tvo stýrihópa til að vakta óbein áhrif COVID-19, annars vegar á lýðheilsu og hins vegar á geðheilsu landsmanna. Þetta er gert í samræmi við tillögu landlæknis þessa efnis, þar sem líklegt er talið að óbein áhrif COVID-19 faraldursins og íþyngjandi sóttvarnaaðgerða geti verið margþætt og komi að einhverju leyti ekki fram fyrr en eftir langan tíma.
Enn sér ekki fyrir endann á faraldrinum og eflaust mörgum landsmönnum vonbrigði og áhyggjuefni að halda þurfi áfram með íþyngjandi sóttvarnaaðgerðir. Í ljósi krefjandi aðstæðna heimsfaraldurs og heimskreppu hélt Evrópudeild Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) sérstakan fund um farsóttarþreytu (e. pandemic fatigue) þann 5. október síðastliðinn. Með farsóttarþreytu er átt við að eftir því sem á líður heimsfaraldur og fólk upplifir aðgerðir stjórnvalda íþyngjandi þá dregur úr hvata til að fylgja ráðleggingum um verndandi hegðun. Þetta getur leitt til þess að fjöldi tilfella COVID-19 aukist. Opinberar sóttvarnaaðgerðir eru víðast hvar í Evrópu án fordæma og hafa haft meiriháttar áhrif á dagleg líf og lífsviðurværi fólks, líðan þess og heilsu. Vísbendingar eru um að farsóttarþreyta færist í vöxt í Evrópu. Brýnt er að bregðast við þreytu fólks og vernda þann árangur sem náðst hefur með hinum íþyngjandi aðgerðum, enda hefur þessi árangur náðst með miklum fórnum almennings.
Líklegt er að óbein áhrif faraldurs COVID-19 sem og sóttvarnaaðgerða geti verið margþætt og að sum áhrifin komi ekki fram fyrr en eftir langan tíma. Áhrifin geta til dæmis verið verri heilsuhegðun, minni hreyfing og svefn, verra mataræði og aukin streita, félagsleg einangrun og einmanaleiki, aukið ofbeldi, aukin fátækt, aukið atvinnuleysi, aukinn geðheilbrigðisvandi, lengri bið eftir þjónustu og hugsanlega fleiri óþekkt áhrif. Greining óbeinna áhrifa COVID-19 á lýð- og geðheilsu er mikilvæg til þess að hægt sé að mæla áhrif aðgerða sem ætlaðar eru til þess að efla lýð- og geðheilsu og draga úr neikvæðum afleiðingum COVID-19. Þannig er betur hægt að tryggja að aðgerðir stjórnvalda skili tilætluðum árangri og leiði til betri lýðheilsu og geðheilsu landsmanna.