Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2020 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Kría í Samráðsgátt stjórnvalda

Reglugerð um Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóð er nú í Samráðsgátt stjórnvalda, en hlutverk Kríu er að fjárfesta í sérhæfðum fjárfestingarsjóðum, svokölluðum vísisjóðum (e. venture capital funds) sem sjálfir fjárfesta í nýskapandi sprotafyrirtækjum. Tilgangur með stofnun Kríu er að efla fjárfestingarumhverfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi og er liður í stefnumótun stjórnvalda í málefnum nýsköpunar og í samræmi við Nýsköpunarstefnu.

Til að Kría geti náð markmiði sínu um að efla og þroska fjárfestingarumhverfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi eru með reglugerðinni sett fram skilyrði fyrir fjárfestingum Kríu í vísisjóðum á sviði nýsköpunar sem starfræktir eru með sama hætti og sambærilegir sjóðir á alþjóðavísu. Með aðgerðinni er miðað við að einungis þeir sjóðir sem hafa til að bera ákveðna eiginleika til að teljast vísisjóðir í alþjóðlegum samanburði séu tækir til mótframlags Kríu. Ekki er lagt upp með að Kría taki þátt í öllum þeim fjárfestingarsjóðum sem kunna að verða stofnaðir heldur aðeins þeim sjóðum þar sem líklegt er að góður árangur náist með vísan til skilyrðanna og alþjóðlegrar reynslu af starfsemi vísisjóða. Vísisjóðir eru frábrugðnir öðrum hefðbundum fjárfestingasjóðum til að mynda að því leyti að stjórnendur sjóðanna hafa sprotafjárfestingar að meginstarfi, eru sjálfir hluthafar í sjóðunum og hafa mun meiri aðkomu að rekstri og stefnumótun þeirra sprotafyrirtækja sem þeir fjárfesta í en almennt gengur og gerist. Rekstur vel heppnaðra vísisjóða veltur því á stjórnendum sjóðanna og því afar mikilvægt að stjórnendur þeirra séu sérfróðir um rekstur og vaxtamöguleika sprotafyrirtækja og geti sótt í alþjóðlega reynslu á því sviði.

Í reglugerð um Kríu er svo kveðið með ítarlegum hætti á um önnur skilyrði sem vísisjóðir þurfi að uppfylla svo Kría geti fjárfest og tekið þátt í þeim. Til að mynda þarf stofnfé vísisjóða að vera að lágmarki 4 milljarðar kr. og við umsókn um þátttöku Kríu þarf að vera búið að fjármagna 70% af heildarstofnfé sjóðsins.

Skilyrðin sem fram koma í reglugerðinni eiga að stuðla að því að Kría geti sem best náð markmiði um að sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum hér á landi standi til boða aukið framboð af sérhæfðu fjármagni og þekkingu á rekstri og vexti sprota- og nýsköpunarfyrirtækja á fyrstu stigum sem muni leiða til aukinnar þekkingar og reynslu í fjármögnun og vexti sprota- og nýsköpunarfyrirtækja. Þannig getur Kría stuðlað  að uppbyggingu, vexti og aukinni samkeppnishæfni atvinnulífsins með því að hér á landi verði til heilbrigt umhverfi áhættufjármagns til fjárfestingar í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

Reglugerðin verður til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda til 7. desember 2020.

Áhugasamir eru hvattir til að senda inn umsögn.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

9. Nýsköpun og uppbygging

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta