Forsætisráðherra ávarpar ráðstefnu UNESCO á alþjóðlegum baráttudegi gegn kynbundnu ofbeldi
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hélt í dag ávarp við opnun ráðstefnu Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) sem haldin er í tilefni alþjóðlegs baráttudags gegn kynbundnu ofbeldi.
Ráðstefnan ber yfirskriftina: Transforming mentalities – Engaging men and boys to address the root causes of violence against women, og miðar að því að leita leiða til að takast á við orsakir kynbundins ofbeldis. Kallað er eftir virkri þátttöku karla og drengja til að taka á og umbreyta því hugarfari sem er undirliggjandi þegar kynbundnu ofbeldi er beitt. Audrey Auzolay, framkvæmdastjóri UNESCO, ávarpaði einnig ráðstefnuna.
Forsætisráðherra fór yfir aðgerðir Íslands og lagasetningu sem ætlað er að sporna gegn kynbundnu ofbeldi og stuðla að kynjajafnrétti. Meðal annars ræddi hún um forvarnaráætlun fyrir börn og ungmenni gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni sem samþykkt var á Alþingi í sumar, lög um fæðingarorlof og lög um bann við kaupum á kynlífsþjónustu. Þá tók hún til umræðu bakslagið sem orðið hefur í jafnréttismálum vegna COVID-19:
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra:
„Við eigum langt í land með að útrýma ofbeldi gegn konum og stelpum. #MeToo hreyfingin og sú aukning sem orðið hefur á kynbundnu ofbeldi sem afleiðing af COVID-19 sýna okkur það. Ofbeldið er bæði orsök og afleiðing víðtækara kynjamisréttis í samfélögum og við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að binda enda á það.“
25. nóvember markar upphaf alþjóðlegs 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi em átakinu lýkur á alþjóðlega mannréttindadeginum 10. desember. Samkvæmt upplýsingum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) verður ein af hverjum þremur konum fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi á ævinni. Það eru meira en 243 milljónir kvenna á síðustu tólf mánuðum. Í yfirstandandi heimsfaraldri hefur kynbundið ofbeldi í nánum samböndum aukist mikið og um allt að 40% í sumum löndum. Afleiðingar faraldursins hafa aukið á einangrun kvenna, fjárhagslegt óöryggi, fæðuóöryggi og atvinnuleysi.
Í umræðunni um jafnréttismál á alþjóðavettvangi hefur Ísland beitt sér fyrir aukinni þátttöku karla í umræðunni, meðal annars í gegnum Barbershop verkefnið og He for She átak UN Women. Þá er Ísland á meðal forysturíkja í verkefni UN Women, Kynslóð jafnréttis , um gerð aðgerðaáætlana á alþjóðavísu um kynbundið ofbeldi.