Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra svaraði fyrirspurnum í beinu vefstreymi
Fríverslunarmál, norðurslóðir og sportveiðar voru á meðal umræðuefna í opnum fyrirspurnatíma á Facebook sem Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, gekkst fyrir í hádeginu í dag.
Umræðunum var streymt bæði á Facebook-síðu utanríkisráðuneytisins og opinberri Facebook-síðu Guðlaugs Þórs en þetta er í annað sinn í mánuðinum sem hann svarar fyrirspurnum á þessum vettvangi. Óhætt er að segja að umfjöllunarefnin hafi verið fjölbreytt og spurningarnar sem bárust ráðherra voru af öllu tagi. Má þar nefna innleiðingu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu, opnun landamæra Íslands, utanríkisverslun við Bandaríkin, Suðaustur-Asíu og Rússland, varnarumsvif á Keflavíkurflugvelli, og hvort til greina komi að friðlýsa stór svæði á Íslandi fyrir sportveiðum.
„Á Alþingi tek ég reglulega þátt í óundirbúnum fyrirspurnatímum og hef yfirleitt ánægju af. Það er hins vegar ekki síður skemmtilegt að eiga í milliliðalausum samskiptum við fólk á samfélagmiðlum og svara spurningum þess um utanríkisstefnuna. Undantekningalaust hafa spurningarnar verið málefnalegar og áhugaverðar og borið þessi vitni að áhugi fólks á utanríkismálunum er mikill,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.
Fyrirspurnatíminn stóð í rúman hálftíma en þrátt fyrir það vannst ekki tími til að svara öllum spurningunum sem bárust. Býst ráðherra við að halda annan slíkan fund á næstunni og svo með reglulegu millibili framvegis.