Ungir íslenskir frumkvöðlar hrepptu öll verðlaunin
Íslenskir frumkvöðlar voru sigursælir í nýsköpunarsamkeppni fyrir ungmenni á norðurslóðum en úrslit hennar voru kynnt í dag. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, var á meðal þeirra sem tók þátt í netviðburði í tilefni af því.
Úrslit voru kynnt í dag í nýsköpunarsamkeppni fyrir ungmenni á norðurslóðum, Arctic Future Challenge, sem utanríkisráðuneytið tók þátt í að skipuleggja í tengslum við formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu. Reyndust frumkvöðlar frá Íslandi sigursælir, en í öllum keppnisflokkunum þremur komu verðlaunin í hlut íslenskra þátttakenda.
Yfir 400 frumkvöðlar á aldrinum 18-29 ára frá öllum Norðurskautsríkjunum átta voru tilnefndir til þátttöku í keppninni. Ingvi Georgsson frá Stýrinu tók við verðlaunum fyrir bestu viðskiptahugmyndina (Best Arctic Youth Business Concept) og Aðalheiður Hreinsdóttir frá LearnCove varð hlutskörpust í flokknum stofnandi ársins (Arctic Youth Founder of the Year). Loks tók Ólafur Bogason við verðlaunum fyrir hönd Genki Instruments sem frumkvöðlafyrirtæki ársins (Arctic Youth Startup of the Year).
Verðlaunaafhendingin fór fram á netinu í samstarfi við Hringborð norðurslóða, en upphaflega hafði staðið til að úrslitin yrðu kynnt á þingi Hringborðsins í Hörpu í október, sem var aflýst í ár vegna heimsfaraldursins. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tók þátt í netviðburðinum ásamt Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, Katti Frederiksen, mennta- og menningarmálaráðherra Grænlands, og Helga Abrahamsen, umhverfis- og atvinnuvegaráðherra Færeyja, en inngangsorð flutti Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands og formaður Hringborðs norðurslóða.
Danska utanríkisráðuneytið átti frumkvæði að því að efna til samkeppninnar og leiddi verkefnið í samstarfi við stjórnvöld á Ísland, Grænlandi og í Færeyjum. Markmið þess var að hvetja til nýsköpunar meðal ungmenna í Norðurskautsríkjunum og vekja athygli á fjárfestingar- og viðskiptatækifærum á norðurslóðum.
Eftir að úrslitin höfðu verið kynnt tóku verðlaunahafarnir þrír þátt í pallborðsumræðum um nýsköpunarumhverfið á norðurslóðum, sem streymt var beint af vef Hringborðs norðurslóða.