Ákvörðun um skimun fyrir krabbameinum
Heilbrigðisráðherra hefur samþykkt tillögur landlæknis varðandi fyrirkomulag skimana fyrir krabbameini í brjóstum, leghálsi, ristli og endaþarmi. Tillögurnar eru í samræmi við álit skimunarráðs þessa efnis. Eins og áður hefur verið sagt frá verða jafnframt breytingar á framkvæmd skimana um áramótin þegar heilsugæslan tekur við framkvæmd skimana fyrir krabbameinum í leghálsi og Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri framkvæmd skimana fyrir krabbameini í brjóstum.
Meginefni ákvörðunar ráðherra sem byggist á fyrrnefndum tillögum er eftirfarandi:
- Landlækni er falið að gera tillögu um hvaða evrópsku leiðbeiningar verða lagðar til grundvallar skimunum fyrir brjósta- og leghálskrabbameinum.
- Konum á aldrinum 50–74 verður boðin þátttaka í brjóstaskimun með brjóstamyndatöku, annars vegar á 2.ja ára fresti þegar í hlut eiga konur á aldrinum 50–69 ára og hins vegar á 3.ja ára fresti þegar í hlut eiga konur á aldrinum 70–74 ára. Nánar er fjallað um aldursviðmiðin í meðfylgjandi áliti skimunarráðs og minnisblaði landlæknis.
- Hafin verði leghálsskimun með HPV-mælingum frá næstu áramótum. HPV frumuskimun er ný rannsóknaaðferð og er næmi hennar til að greina frumubreytingar um 95% en næmi hefðbundinnar frumuskoðunar er um 50%. Reglubundin leghálsskimun hefst við 23ja ára aldur og verður skimað á fimm ára fresti.
- Unnið verði að því að lækka gjald fyrir legháls- og brjóstaskimanir í þrepum.
- Hafinn verði undirbúningur að framkvæmd skimana fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi, verkefnið kostnaðarmetið og unnið í tengslum við fjármálaáætlun til næstu fimm ára.
- Hafinn verði undirbúningur að þróun nýrrar skimunarskrár.
Eins og fram hefur komið verða breytingar á skipulagi, stjórn og framkvæmd skimunar fyrir krabbameinum um næstu áramót. Landspítali í samvinnu við Sjúkrahúsið á Akureyri tekur þá að sér framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í brjóstum og sérskoðun brjósta og legháls en heilsugæslan um allt land mun annast framkvæmd skimana fyrir krabbameini í leghálsi. Markmið breytinganna er að færa verklag nær því skipulagi sem mælt er með í alþjóðlegum skimunarleiðbeiningum til að tryggja enn frekar öryggi og gæði og er jafnframt í samræmi við framtíðarsýn og meginmarkmið heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Embætti landlæknis mun fara með stjórn hópleitarinnar og bera ábyrgð á henni, sinna gæðaeftirliti og halda skimunarskrá.
Sett hefur verið á fót Samhæfingarstöð krabbameinsskimana sem tekur til starfa í byrjun næsta árs. Meðal verkefna hennar verður að boða konur í reglubundna skimun og veita upplýsingar um niðurstöður skimana. Samhæfingarstöðin heyrir undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en starfar á landsvísu.