Guðlaugur Þór tók þátt í varnarmálaráðherrafundi
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, var boðinn sérstaklega velkominn á fundinn af Artis Pabriks, varnarmálaráðherra Lettlands, þar sem um fyrsta fund Guðlaugs Þórs með þátttökuríkjum í eFP (e. Enhanced Forward Presence) var að ræða. Ísland hóf í september sl. að styðja við samstöðuaðgerð bandalagsins í Lettlandi með því að leggja til borgaralegan sérfræðing á sviði upplýsingamiðlunar. Fulltrúar Íslensku friðargæslunnar á þessu sviði eru nú við störf hjá fjölþjóðaliði Atlantshafsbandalagsins í öllum þremur Eystrasaltsríkjunum.
„Þótt við séum herlaus þjóð leggjum við okkar af mörkum til þessara samstöðuaðgerða sem hafa að markmiði að tryggja öryggi hjá nánum vinaþjóðum á okkar nærsvæði. Á fundinum kom glöggt fram að þátttaka Íslands í aðgerðunum er talið gagnlegt og sýnilegt framlagt til friðar,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.
Samstöðuaðgerðirnar við Eystrasalt eiga rætur að rekja til viðbragða Atlantshafsbandalagsins við íhlutun Rússlands í Úkraínu árið 2014. Á leiðtogafundi bandalagsins í Wales árið 2014 samþykktu leiðtogarnir að auka samvinnu og uppbyggingu í varnarmálum. Í Varsjá 2016 var svo samþykkt að efla fælingu og varnir bandlagsins með því að setja á laggirnar fjölþjóðalið í Póllandi og Eystrasaltsríkjunum.