Hoppa yfir valmynd
27. nóvember 2020 Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Brandenburg valið úr hópi umsækjenda í hönnun og þróun einkennis Fyrirmyndaráfangastaða

Á myndinni eru María Reynisdóttir, Arnar Halldórsson, Ásgerður Karlsdóttir, Dóri Andrésson, Bragi Valdimar Skúlason, Rúna Dögg Cortez og Hildur Kristjánsdóttir. - mynd

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs auglýstu á dögunum eftir hönnuði eða hönnunarteymi til að vinna að hönnun og þróun einkennis og kynningarefnis fyrir nýtt kerfi áfangastaðastjórnunar, sem ber vinnuheitið Fyrirmyndaráfangastaðir í ferðaþjónustu.

Alls bárust 13 umsóknir um að taka verkefnið að sér en að lokum var það niðurstaða valnefndar að bjóða auglýsingastofunni Brandenburg verkefnið. 

„Ég vil þakka Miðstöð hönnunar og arkitektúrs fyrir að leiða valferlið og við hlökkum til að vinna að mótun ásýndar Fyrirmyndaráfangastaða með Brandenburg, í þágu íslenskrar ferðaþjónustu”, segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- ,iðnaðar - og nýsköpunarráðherra.  „Undanfarin ár hefur uppbygging innviða á áfangastöðum ferðamanna um land allt verið í fyrirrúmi, með áherslu á náttúruvernd og öryggismál. Með þessu verkefni höldum við áfram á þeirri braut en með nýrri nálgun á áfangastaðastjórnun, sem tekur aukið tillit til upplifunar gesta og sérkenna hvers staðar. Það er okkar von að Fyrirmyndaráfangastaðir efli jákvæða ímynd Íslands sem lands sjálfbærrar þróunar, í takt við framtíðarsýn og leiðarljós ferðaþjónustunnar til 2030.” 

Markmiðið með Fyrirmyndaráfangastöðum er að skapa umgjörð utan um hugmyndafræði heildstæðrar nálgunar í áfangastaðastjórnun. Hægt er lesa nánar um verkefnið hér.

Við á Brandenburg erum einstaklega ánægð með að hafa verið valin úr sterkum hópi umsækjenda og mjög spennt fyrir þessu mikilvæga verkefni. Við tökum glöð við þeirri ábyrgð sem það felur í sér. Okkar hlutverk verður að skapa bæði merki og umgjörð Fyrirmyndaráfangastaða með skírskotun í allt hið sérstæða sem gerir Ísland að spennandi áfangastað ásamt því að finna verkefninu viðeigandi heiti,“ segir Rúna Dögg Cortez, viðskiptastjóri hjá Brandenburg „Við sóttumst eftir því að taka þátt í verkefninu því það vakti áhuga okkar og sameinaði ástríðu okkar fyrir hönnun og Íslandi. Fyrirmyndaráfangastaðir er verkefni sem augljóslega hefur verið lögð mikil vinna í að undirbúa og er ánægjulegt að vera hluti af áframhaldandi vinnu við að styrkja sjálfbæra þróun ferðaþjónustunnar.“

Í valnefnd sátu María Reynisdóttir, sérfræðingur, fulltrúi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, Einar Á. E. Sæmundssen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, fulltrúi umhverfis- og auðlindaráðuneytis og Magnús Hreggviðsson, grafískur hönnuður, fulltrúi Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
11. Sjálfbærar borgir og samfélög
9. Nýsköpun og uppbygging

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta