Fjölþætt viðbrögð við skýrslum rannsóknarnefnda Alþingis
Forsætisráðherra hefur lagt fram á Alþingi skýrslu, um ábendingar sem varða stjórnsýsluna í rannsóknarskýrslum Alþingis um orsakir falls íslensku bankanna 2008, orsakir falls sparisjóðanna og erfiðleika Íbúðalánasjóðs og viðbrögð við þeim.Eins og ítarlega er rakið í skýrslunni er það mat hlutaðeigandi stjórnvalda að brugðist hafi verið við flestum ábendingum rannsóknarnefndanna en það hefur verið gert með fjölþættum hætti.
Dregnar eru fram 339 ábendingar. Flestar heyra þær undir Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands, fjármálaráðuneytið og forsætisráðuneytið og hefur verið brugðist við þeim í yfirgnæfandi hluta tilfella.
Skýrslan á rót sína að rekja til skýrslubeiðni sem Alþingi samþykkti 148. löggjafarþingi þar sem þess var beiðst að dregnar yrðu fram allar ábendingar er varða stjórnsýsluna í þeim þremur rannsóknarskýrslum sem beiðnin tók til og að greint yrði frá því hvort og þá hvernig brugðist hafi verið við einstökum ábendingum. Þeim stjórnvöldum sem nú bera ábyrgð á málefnunum sem ábendingar varða var síðan falið að svara því hvort og þá að hvaða marki brugðist hafi verið við ábendingum.