Hoppa yfir valmynd
27. nóvember 2020 Föstudagspóstur utanríkisráðuneytisins

Föstudagspósturinn 27. nóvember 2020

Heil og sæl.

Við heilsum ykkur frá Rauðarárstígnum í heldur hryssingslegu veðri og færum ykkur það helsta sem hefur átt sér stað í utanríkisþjónustunni síðustu daga. Þrátt fyrir að vetur konungur hafi knúið nokkuð ákveðið að dyrum í vikunni var heldur betur tilefni til að brosa í morgun enda unnu tvö landslið okkar góða sigra í gær. Annars vegar íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu sem lagði Slóvakíu að velli og hins vegar karlalandsliðið í körfuknattleik sem sigraði Lúxemborg. Nóg um það.

Að vanda var dagskrá Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra þétt í vikunni. Á þriðjudag fór ráðherra í viðtal við Bloomberg fréttaveituna þar sem hann ræddi m.a. vilja íslenskra stjórnvalda til þess að laða að sér nýjar fjárfestingar, samband Íslands og Bandaríkjanna og samband Íslands og Bretlands í kjölfar útgöngu þess síðastnefnda úr Evrópusambandinu. Áhugasamir geta hlustað á hlaðvarpsviðtalið hér sem tengist einnig viðburði sem haldinn verður á mánudag undir yfirskriftinni „How do I invest in Iceland?“ þar sem ráðherra tekur m.a. þátt.

Sama dag tilkynnti ráðherra í ávarpi á framlagaráðstefnu vegna Afganistans um áform Íslands um að leggja jafnvirði þrjátíu milljóna króna til mannúðaraðstoðar í Afganistan. Í ávarpi utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, sem flutt var í gegnum fjarfundarbúnað, var lögð áhersla á að yfirstandandi viðræður afganskra stjórnvalda og talibana væru sögulegt tækifæri til þess að koma á friði í landinu. 

Á miðvikudag efndi ráðherra á ný til opins fyrirspurnatíma á Facebook þar hann ræddi m.a. fríverslunarmál, norðurslóðir og sportveiðar milliliðalaust.

„Á Alþingi tek ég reglulega þátt í óundirbúnum fyrirspurnatímum og hef yfirleitt ánægju af. Það er hins vegar ekki síður skemmtilegt að eiga í milliliðalausum samskiptum við fólk á samfélagmiðlum og svara spurningum þess um utanríkisstefnuna. Undantekningalaust hafa spurningarnar verið málefnalegar og áhugaverðar og borið þessi vitni að áhugi fólks á utanríkismálunum er mikill,“ sagði Guðlaugur Þór en þetta er í annað sinn í mánuðinum sem hann svarar fyrirspyrnum á þessum vettvangi. 

Á miðvikudag fór einnig fram opinn rafrænn viðskiptafundur Íslands og Eistlands á sviði stafrænnar stjórnsýslu. Þar voru möguleikar á starfrænum lausnum í opinberri þjónustu og nýjungar íslenskra og eistneskra fyrirtækja, einkum á sviði heilbrigðismála og í tengslum við Covid-19 í brennidepli 

Guðlaugur Þór flutti þar erindi og vék í því að nánum og góðum samskiptum Íslands og Eistlands, möguleikum á sviði stafrænnar tækni og þeim tækifærum sem henni fylgdu á tímum heimsfaraldurs.

Í gær tók Guðlaugur Þór þátt í varnarmálaráðherrafundi þátttökuríkja í samstöðuaðgerðum Atlantshafsbandalagsins í Lettlandi og var hann boðinn sérstaklega velkominn á fundinn af Artis Pabriks, varnarmálaráðherra Lettlands, þar sem um fyrsta fund Guðlaugs Þórs með þátttökuríkjum í eFP (e. Enhanced Forward Presence) var að ræða.

„Þótt við séum herlaus þjóð leggjum við okkar af mörkum til þessara samstöðuaðgerða sem hafa að markmiði að tryggja öryggi hjá nánum vinaþjóðum á okkar nærsvæði. Á fundinum kom glöggt fram að þátttaka Íslands í aðgerðunum er talið gagnlegt og sýnilegt framlagt til friðar,“ sagði Guðlaugur Þór.

Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók svo þátt í netviðburði í tengslum við nýsköpunarkeppni fyrir ungmenni á norðurslóðum en úrslit hennar voru kynnt í gær. Þar voru íslenskir frumkvöðlar sigursælir en yfir 400 frumkvöðlar á aldrinum 18-29 ára frá öllum Norðurskautsríkjunum átta voru tilnefndir til þátttöku í keppninni. 

Á þriðjudag sögðum við svo frá því að út væri komin skýrsla um þátttöku íslenskra aðila í Uppbyggingarsjóði EES og þau tækifæri og áskoranir sem felast í þátttökunni.

Og nú ætlum við að líta út í heim eins og veðurfræðingar gera jafnan þótt tilgangurinn með þeim samanburði á veðurfari sé illskiljanlegur - það á þó ekki við um yfirferðina sem nú fer í hönd:

Við hefjum leik í Peking en þar áttu sér stað risastór félagaskipti er Svava Tryggvadóttir, fyrrum landsliðsmiðvörður í fótbolta 1981-1987 og leikmaður Breiðabliks, og núverandi sendiráðsfulltrúi í sendiráði Íslands í Peking, gekk til liðs við fótboltaliðið SexyTeam FC, sem spilar í alþjóðakvennadeildinni í Kína. SexyTeam FC mætti Anejo FC í vikunni og fór með sigur af hólmi, 4-2 (án efa Svövu að þakka). Tekið skal fram að karlaliðið kennir sig líka við kynþokka. 

 

Peking - Svava Tryggvadóttir, fyrrum landsliðskona í fótbolta 1981-1987 og leikmaður Breiðabliks, og núverandi...

Posted by Utanríkisráðuneytið - utanríkisþjónusta Íslands on Wednesday, 25 November 2020

 

Í sendiráði okkar í Peking fór einnig fram „Reykjavík Satellite“ viðburður í tengslum við heimsþing kvenleiðtoga sem haldið var á dögunum þar sem rætt var um stöðu kvenna í Kína með áherslu á stöðu þeirra í leiðtogahlutverkum á öllum sviðum samfélagsins. Þá fór sendiherra Íslands í Peking, Gunnar Snorri Gunnarsson, einnig í athyglisverða heimsókn til Guangdong-héraðs sem nánar er hægt að lesa um hér.

Í Rússlandi afhenti Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands þar í landi, Vladimir Pútín forseta Rússlands, trúnaðarbréf sitt. Athöfnin fór fram í Kremlarhöll í Moskvu og í umfjöllun sinni um samskipti Íslands og Rússlands sagðist Vladimír Pútín vilja styrkja enn frekar tengslin við Ísland, bæði tvíhliða og í gegnum svæðisbundna samvinnu. Nefndi hann sérstaklega að Ísland færi nú með formennsku í Norðurskautsráðinu og myndi afhenda Rússlandi formennskukeflið næsta vor. Þá gat hann um mikilvægt samstarf á sviði hátækni og þróunar á sviði sjávarútvegs og nýtingar sjávarafurða, hönnunar fiskiskipa og að á sviði jarðhita og landbúnaðar væru einnig tækifæri. Fleiri myndir má sjá hér.

Í gær fór fram árlegt tvíhliða samráð íslenskra og breskra stjórnvalda um alþjóða- og öryggismál. Á meðal þess sem rætt var á fjarfundinum voru málefni norðurslóða, sér í lagi formennska Íslands í Norðurskautsráðinu, netöryggi, loftslagsmál, þróunarsamvinna og mannréttindi og hvernig megi enn frekar styrkja gott samstarf ríkjanna, bæði tvíhliða sem og innan alþjóðastofnana enda eru ríkin tvö um margt líkt þenkjandi.

Í New York var vakin athygli á óvenjulegu sniði á nefndarstörfum á 75. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna enda fara flestar samingaviðræður um ályktanir fram með rafrænum hætti þó að atkvæðagreiðslur séu haldnar í sölum SÞ. Í tveimur ályktunum sem samþykktar voru á síðustu dögum hefur Ísland verið í leiðandi hlutverki. Í nefnd um þróunarmál hefur Ísland undanfarin ár tekið að sér að leiða, ásamt Alsír, samningaviðræður um ályktun um eyðimerkurmyndun og landgræðslu, sem samþykkt var samhljóða í vikunni. Í nefnd um félags- og mannréttindi leiddi Ísland í þriðja skipti ályktun um styrkingu mannréttindanefndanna í Genf.

Í Genf var í vikunni fundað í nefnd Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um viðskipti og umhverfismál og var Ísland þar í hópi ríkja sem lagði fram yfirlýsingu um að auka vægi umhverfismála í störfum stofnunarinnar. Þar fór einnig fram fundur alþjóðafólksflutningastofnunarinnar (IOM) þar sem kosið var um  ný aðildarríki að stofnunni og studdi Ísland aðild Rússlands, en nú eru aðildarríkin orðin alls 174. Í Genf var jafnframt vakin athygli á því að fríverslunarsamningur EFTA og Ekvador væri nýlega tekinn í gildi. Af því tilefni bauð EFTA fyrirtækjum í Ekvador til málstofu með fjarfundarbúnaði. Íslenski varafastafulltrúinn, Katrín Einarsdóttir, hélt erindi um innflutning landbúnaðarafurða til Íslands frá Ekvador, en þaðan flytjum við inn bróðurpartinn af banönum, sem neytt er á Íslandi. Samningurinn er gagnkvæmur og opnar fyrir viðskipti Íslendinga í Ekvador.

Í Berlín liggur listasenan ekki í dvala þrátt fyrir útgöngu- og samkomutakmarkanir og var María Erla Marelsdóttir viðstödd opnun sýningar hjá Persons gallerínu í Berlín síðastliðinn föstudag, þar sem þrír íslenskir listamenn sýna verk sín, þau Anna Rún Tryggvardóttir, Finnbogi Pétursson, og Ragna Róbertsdóttir.

Sendiráðið í Berlín hefur notað tímann undanfarna mánuði til að efla og styrkja tengslin við aðila í stjórnsýslu, viðskiptum og menningarmálum í sambandslöndunum. María Erla sendiherra heimsótti fyrr í haust Bremen og Bremerhaven og ræddi við ráðamenn um hvernig styrkja má enn frekar tengslin við Ísland, þ.m.t. á sviði fiskiðnaðar, bláa hagkerfisins og sjálfbærra orkugjafa en ekki síður í menningarmálum. Sýningin „hafið – reflections of the sea“ sem sett var upp í menningarmiðstöð norrænu sendiráðanna í ársbyrjun verður sett upp í Bremerhaven um leið og aðstæður leyfa. Sendiherra fundaði með fulltrúum fyrirtækja í sjávarútvegi í Bremen og Bremerhaven og ræddi áskoranir og tækifæri við markaðssetningu á íslenskum fiskafurðum í skugga heimsfaraldursins. Hún heimsótti einnig Bremen Ports, sem vinnur að uppbyggingu hafnarsvæðis við Finnafjörð og ræddi við forsvarsmenn fyrirtækisins um verkefnið og stefnu, strauma og verkefni í alþjóðlegum viðskiptum á hafi. 

Í Noregi hefur sömuleiðis verið nóg um að vera. Á mánudag fundaði Ingibjörg Davíðsdóttir sendiherra með Steinunni Þórðardóttur varaformanni Norsk-Íslenska viðskiptaráðsins þar sem þær ræddu m.a. um að efla samstarfið, ný tækifæri á báðum mörkuðum og aukinn áhuga viðskiptaaðila á Íslandi og Noregi. 
Í gær var svo haldinn ársfundur Uppbyggingarsjóðs EES í Grikklandi. Ársfundurinn sem öllu jöfnu er haldinn í Aþenu, fór í þetta skiptið fram rafrænt á Teams, með þátttöku fulltrúa frá Aþenu, Osló og Brussel. Ingibjörg tók þátt í fundinum fyrir Íslands hönd. Í dag átti Ingibjörg jafnframt svo mjög vel heppnaða og covid-væna kurteisisfundi í embættisbústaði Íslands á Bygdøy. Hún fékk sendiherra Grikklands og Spánar á fund þar sem rætt var m.a. um góð samskipti ríkjanna, stöðu heimsfaraldursins, trúnaðarbréfsafhendingar og lífið í Noregi. Báðir sendiherrarnir eru einnig með Ísland í sínu umdæmi.

Þann 25. nóvember, á alþjóðlegum baráttudegi gegn ofbeldi gagnvart konum, hófst alþjóðlegt sextán daga átak gegn kynbundnu ofbeldi en því mun ljúka 10. desember sem er alþjóðlegi mannréttindadagurinn. Markmið átaksins er að knýja á um afnám á kynbundnu ofbeldi og hvetja til opinnar umræðu og vitundarvakningu meðal almennings sem getur leitt til frekari aðgerða. Í ár er lögð áhersla á að bregðast þurfi við auknu ofbeldi gagnvart konum í kjölfar heimsfaraldursins.

Af því tilefni verður utanríkisráðuneytið baðað  roðagylltri birtu næstu sextán daga til að vekja athygli á málefninu. Sömuleiðis hafa sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn og París verið lýst upp í roðagylltum lit.

 

Utanríkisráðuneytið verður baðað roðagylltri birtu næstu sextán daga til að vekja athygli á alþjóðlegu átaki gegn...

Posted by Utanríkisráðuneytið - utanríkisþjónusta Íslands on Wednesday, 25 November 2020

 

Koparbandið sem umlykur sendiráð Norðurlandanna í Berlín hefur einnig verið lýst upp með appelsínugulum lit.

 

Die nordischen Botschaften in Berlin sind bis 10. Dezember orange beleuchtet, um Aufmerksamkeit auf die Abschaffung...

Posted by Botschaft von Island / Sendiráð Íslands í Berlín on Friday, 27 November 2020

 

Sendiráð Íslands í Moskvu og Sendiráð Íslands í Stokkhólmi bættust svo í hópinn í dag.

 

Sendiráð Íslands í Moskvu og Sendiráð Íslands í Stokkhólmi hafa nú bæst í hóp sendiráða sem eru lýst upp í roðagylltri...

Posted by Utanríkisráðuneytið - utanríkisþjónusta Íslands on Friday, 27 November 2020

 

Við endum svo þessa yfirferð á þeirri hefð sem skapast hefur hjá starfsfólki utanríkisþjónustunnar að gera sér dagamun í aðdraganda aðventunnar. Í dag fékk starfsfólk utanríkisþjónustunnar að hlýða á þær Auði Jónsdóttur og Birnu Önnu Björnsdóttur lesa uppúr bók sinni 107 Reykjavík, auk þess sem okkar eini sanni Davíð Logi Sigurðsson veitti okkur innsýn í bók sína Þegar heimurinn lokaðist: Petsamo-ferð Íslendinga 1940.

Í næstu viku á dagskrá ráðherra er utanríkisráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins og ráðherrafundur ÖSE, auk viðburðarins vestanhafs How Do I Invest in Iceland þar sem hann flytur ávarp.

Bestu kveðjur,

upplýsingadeild

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta