Hoppa yfir valmynd
2. desember 2020 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Myndband um hvers vegna erlendir sérfræðingar í hátækni- og hugverkaiðnaði velja Ísland sem atvinnusvæði

Á myndinni eru, talið frá vinstri, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu. - mynd

Íslandsstofa og Samtök iðnaðarins hafa sameinast um gerð myndbands sem kynnir hvað Ísland hefur upp á að bjóða fyrir erlenda sérfræðinga sem vilja taka þátt í uppbyggingu hátækni- og hugverkaiðnaðar hér á landi. Myndbandið sem nefnist Work in Iceland var frumsýnt í dag í beinu streymi þar sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, flutti ávarp.

 

 

Myndbandið er mikilvægt skref í þeirri vegferð að efla markaðssetningu á Íslandi sem ákjósanlegan stað til búsetu og atvinnu. Í myndbandinu er rætt við átta erlenda sérfræðinga frá Marel, Alvotech, CCP og Algalíf sem hafa sest að á Íslandi og segja þeir frá helstu kostum þess að búa og starfa hér á landi. Eitt af lykilskilyrðum fyrir vöxt hugverkafyrirtækja hér á landi er aðgangur að sérfræðiþekkingu og þarf oft á tíðum að leita út fyrir landssteinana að þekkingu og reynslu til að byggja upp stór alþjóðleg tæknifyrirtæki hér á landi.

Heimasíðan www.workiniceland.is er heildstæð upplýsingagátt á ensku og hefur það að markmiði að kynna Ísland sem ákjósanlegan stað til búsetu og vinnu. Vefurinn er samstarfsverkefni ÍslandsstofuSamtaka iðnaðarins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Þar eru meðal annars upplýsingar um ferlið við að sækja um atvinnu- og dvalarleyfi, tryggingar og skattamál.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

„Við höfum upp á mikið að bjóða fyrir erlenda sérfræðinga en getum líka lært mikið af þeim. Með því að markaðssetja Ísland sem ákjósanlegan stað fyrir erlenda sérfræðinga til að búa og starfa styrkjum við nýsköpunarumhverfið og búum því jarðveg þar sem hugmyndaríkt hæfileikafólk mætist og stækkar sjóndeildarhringinn hvert hjá öðru. Þannig búum við til mikilvægar tengingar fyrir nýsköpunarumhverfið og höldum áfram að þroska það.“

 

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI:

„Skortur á sérfræðiþekkingu hefur verið ein af þeim áskorunum sem hátækni- og hugverkafyrirtæki hafa staðið frammi fyrir. Þau hafa því í auknum mæli leitað út fyrir landssteinana að þeirri þekkingu sem þarf til að þau geti vaxið og dafnað hér á landi. Myndbandið beinir kastljósinu að því sem gerir Ísland að ákjósanlegum stað til búsetu og starfa sem gæti auðveldað fleirum að taka þá ákvörðun að taka þátt í vexti hugverkaiðnaðar, sem er orðin mikilvæg stoð í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins.“

 

Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu:

„Það er margt við íslenska samfélagsgerð sem við tökum sem gefnu sem aðrir telja til mikilvægra samfélagslegra gæða. Þegar Íslandsstofa vann að gerð útflutningsstefnu fyrir Ísland kom skýrt í ljós hversu mikilvægt það er fyrir íslensk fyrirtæki að hafa aðgang að starfsmönnum um allan heim með ólíka sérþekkingu. Vefurinn Work in Iceland og önnur verkefni Íslandsstofu taka því nú aukið mið af mikilvægi þess að vekja áhuga á Íslandi sem áhugaverðum stað til að búa og starfa.“

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
8. Góð atvinna og hagvöxtur
9. Nýsköpun og uppbygging

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta