Sýnileiki úrræða aukinn: Forvarnarverkefnið Eitt líf fer aftur af stað
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra:
„Aðgengi og framboð á ávanabindandi lyfjum og vímuefnum hefur breyst mikið á undanförnum árum. Við þurfum að vera vakandi fyrir afleiðingum þeirrar þróunar því hún snertir okkur öll. Markmið verkefnisins er að vekja okkur til umhugsunar og tala opinskátt um þessi mál til að koma megi í veg fyrir þann skaða sem þessi efni geta valdið, ekki síst ungu fólki. Samvinna og skýr markmið eru lykilatriði í að ná árangri í því verkefni.“
Um er að ræða fjölþætt fræðslustarf sem er sérsniðið að ungmennum, foreldrum og starfsfólki skóla-, íþrótta- og frístundastarfs.
Í því felst meðal annars að auka sýnileika þeirra úrræða sem þegar eru til staðar fyrir ungmenni í vanda og auðvelda þeim og aðstandendum þeirra að finna aðstoð og upplýsingar. Það verður m.a. gert með sérsniðinni leitarvél á vefnum eittlif.is.
Leitarvélin er tengd ítarlegum gagnagrunni þar sem hægt er að kalla fram upplýsingar um úrræði sem gætu hentað viðkomandi m.a. út frá aldri, kyni, staðsetningu og tegund vanda, s.s. þeim sem tengjast geðheilbrigði, fíkn, ofbeldi, kynheilbrigði, félagsmálum eða fráfalli ástvinar.
Eftir áramót verður rafrænn fyrirlestur ætlaður fullorðum gerður aðgengilegur á vegum „Eins lífs“ sem og styttri myndbrot ætlað ungmennum. Auk þess verður farið í vinnu við gerð námsefnis fyrir efri bekki grunnskóla þar sem fjallað verður um ávana- og fíkniefni og ábyrga lyfjanotkun.
Ráðgjafahópur „Eins lífs“ er leiddur af mennta- og menningarmálaráðuneytinu en í honum eru fulltrúar frá Embætti landlæknis, félagsmálaráðuneytinu, heilbrigðisráðuneytinu, Kennarasambandi Íslands, Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samfés, Grunni – félagi fræðslustjóra og stjórnenda á skólaskrifstofum, Rannsókn & greiningu, Sambandi íslenskra framhaldsskólanema, Menntavísindasviði Háskóla Íslands, skólameistarafélagi Íslands, Sambandi íslenskra framhaldsskólanema, Menntamálastofnun og samtakanna Heimili og skóli.