Hoppa yfir valmynd
4. desember 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Opið þing um framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum 9. desember

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndStjórnarráðið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra boðar til vefþings og samráðs um framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Ráðstefnan hefst kl. 9.00 með opnunarávarpi ráðherra. Síðan taka við stutt erindi leik- og fagmanna um efnið sem lýkur með pallborðsumræðum. Þeir sem fylgjast með þinginu geta tekið þátt í umræðum og komið spurningum á framfæri í gegnum forritið Slido.

Streymt verður beint frá þinginu sem lýkur kl. 11.00. Strax að þinginu loknu verða haldnar lokaðar vinnustofur þar sem þátttakendur vinna að mótun framtíðarsýnar með hliðsjón af áherslum heilbrigðisstefnu og forgangsraða aðgerðum til að vinna að framgangi hennar. Heilbrigðisráðuneytið mun vinna úr afrakstri vinnustofanna og leggja fram drög að framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 sem verður kynnt í samráðsgátt stjórnvalda, ásamt aðgerðaáætlun til næstu ára.

Heilbrigðisstefna til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi árið 2019. Til að lýsa framtíðarsýninni eru í stefnunni sett fram sjö lykilviðfangsefni sem eru: Forysta til árangurs, rétt þjónusta á réttum stað, fólkið í forgrunni, virkir notendur, skilvirk þjónustukaup, gæði í fyrirrúmi og hugsað til framtíðar. Framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum þarf að taka mið af þessum lykilviðfangsefnum heilbrigðisstefnunnar.

Svandís Svavarsdóttir: „Núgildandi stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum sem samþykkt var á Alþingi árið 2016 er að renna sitt skeið. Meginmarkmið geðheilbrigðisstefnu var aukin vellíðan og betri geðheilsa lands­manna og virkari samfélagsþátttaka einstaklinga sem glíma við geðraskanir til skemmri eða lengri tíma óháð búsetu þeirra. Samfélagið hefur öðlast aukinn skilning á mikilvægi góðrar geðheilsu og endurspeglast sá skilningur ekki síst í aðgerðum stjórnvalda sem hafa sett geðheilbrigðismál í forgang. Mikilvægt er að halda áfram að byggja upp geðrækt, forvarnir og geðheilbrigðisþjónustu í landinu.

Ég vonast til að sem flest sjái sér fært að taka þátt í þinginu. Þetta er mikilvægt málefni sem varðar okkur öll, hver sem við erum og hvað sem við gerum. Öll sjónarmið eru mikilvæg, hvert og eitt skiptir máli.“

Nánar um þingið:

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra mun opna þingið með sínum vangaveltum um framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum.

Þá mun fjölbreyttur hópur fólks taka til máls og fjalla m.a. um fimm lykilatriði sem þau telja mikilvæg varðandi framtíðarsýn í málaflokknum. Þátttakendum í streymi gefst kostur á að koma á framfæri vangaveltum og spurningum í gegnum Slido forritið en spurningar verða teknar jafnt og þétt yfir þingið og svo í lokin í pallborðsumræðum.

Fyrirlesarar eru Karen Geirsdóttir, formaður Hugrúnar geðfræðslufélags, Sigrún Daníelsdóttir, sálfræðingur og verkefnastjóri geðræktar hjá embætti landlæknis, Héðinn Unnsteinsson, formaður Landsamtakanna Geðhjálpar, Berglind Guðmundsdóttir, yfirsálfræðingur á Landspítala og prófessor við Háskóla Íslands, Málfríður Hrund Einarsdóttir, formaður Hugarafls, Bóas Valdórsson sálfræðingur hjá Menntaskólanum í Hamrahlíð, Kristbjörg Þórisdóttir, sérfræðingur í klínískri sálfræði hjá Heilsugæslunni í Garðabæ, Ingólfur Sveinn Ingólfsson, yfirlæknir Geðheilsuteymis vestur, Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara.

Fundarstjórar eru Felix Bergsson og Ingibjörg Sveinsdóttir.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta