Dómi Héraðsdóms Reykjavíkur vegna ÍLS-veðbréfs áfrýjað til Landsréttar
Í ljósi þeirra verulegu hagsmuna sem undir eru í kjölfar nýgengins dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-3141/2020, um lögmæti uppgreiðslugjalds vegna ÍLS-veðbréfs, hafa stjórnvöld ákveðið að áfrýja dómnum til Landsréttar.
Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að ákvæði reglugerðar sem mælti fyrir um útreikning uppgreiðslugjalds vegna skuldabréfs (ÍLS-veðbréfs) sem gefið var út í apríl 2008 hafi ekki uppfyllt þau skilyrði sem gerð voru í lögum.
Ljóst er að talsverðir fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi fyrir ÍL-sjóð og þar með ríkissjóð, en ekki síður fyrir þá 8500 lántaka sem greitt hafa upp lán með uppgreiðslugjaldi og þá 3300 sem eiga útistandandi lán. Þegar hafa verið innheimtir um 5,2 ma.kr. í sambærilegum uppgreiðsluþóknunum og ógjaldfallin uppgreiðslugjöld virkra lána eru um 3 ma.kr., en gjöldunum var ætlað að mæta kostnaði sjóðsins af uppgreiðslu lána.
Rétt þykir að fá úr málinu skorið fyrir Landsrétti til að leysa úr ósamræmi dómafordæma, þar sem niðurstaða dómsins virðist stangast á við héraðsdóm frá árinu 2014 í máli nr. E-1440/2013. Þar var niðurstaðan sú að fullnægjandi lagastoð væri fyrir reglugerðarákvæðinu sem gjaldið byggði á og að ekki hefði verið sýnt fram á að aðferðafræðin í reglugerðinni samrýmdist ekki umræddu lagaákvæði. Að sama skapi var í máli nr. E-6400/2019 talið að skilmálar af þessu tagi í ÍLS-veðbréfum hafi endurspeglað framangreind laga- og reglugerðarákvæði.
Þá er í niðurstöðu dómsins ekki tekið tillit til þess ávinnings sem mótaðilar ríkisins nutu vegna lægri vaxta. Að mati stjórnvalda hefði lækkun á kröfu átt að rúmast innan kröfugerðar ríkisins í ljósi málatilbúnaðar og því hefði borið að lækka tildæmda kröfu, sem nam tæplega 3,8 m.kr., í samræmi við ávinninginn.
Þar til niðurstaða Landsréttar liggur fyrir verður innheimta uppgreiðsluþóknana með óbreyttum hætti. Verði niðurstaða dómsins sú að innheimta uppgreiðsluþóknana verði dæmd ólögmæt munu stjórnvöld miða fyrningarfrest við 4. desember 2020 þegar dómur héraðsdóms féll, auk þess sem ekki verður gerð krafa um að fyrirvari hafi verið settur af hálfu viðskiptavina við uppgreiðslu lána.