Hoppa yfir valmynd
9. desember 2020 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra ávarpaði ráðherrafund UNESCO um öryggi blaðamanna

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og Audrey Azoulay, aðalframkvæmdastjóri UNESCO. Myndin er tekin árið 2019 við undirritun samkomulags um Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu undir merkjum UNESCO.  - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, ávarpaði í dag ráðherrafund um öryggi blaðamanna og refsileysi glæpa gegn fjölmiðlafólki. 

„Í óvissunni sem hefur orðið í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins hefur hlutverk fjölmiðla aldrei verið jafn mikilvægt,“ sagði Guðlaugur Þór meðal annars í erindi sínu. „Það er átakanlegt að sjá hvernig stjórnvöld í sumum ríkjum hafa notað faraldurinn til að koma höggi á fjölmiðla, frjáls félagasamtök og opna umræðu.“ Þá vísaði ráðherra enn fremur í yfirlýsingu fundarins og hvatti til þess að fjölmiðlafólki, sem hefur verið fangelsað vegna starfa sinna, verði sleppt.

Fundurinn, sem var haldinn í gegnum fjarfundabúnað, var haldinn samhliða ráðstefnu hollenskra stjórnvalda og UNESCO í tilefni af alþjóðlegum degi fjölmiðlafrelsis. Stef Blok, utanríkisráðherra Hollands, kynnti yfirlýsingu fundarins „The Hague Commitment on the Safety of Journalists“ og í framhaldi ávarpaði Audrey Azoulay, framkvæmdastjóri UNESCO, fundinn. Stofnunin er ábyrg fyrir vinnu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er varðar öryggi blaðamanna og tjáningarfrelsi, sem er eitt af áherslumálum Íslands á vettvangi UNESCO.

Guðlaugur Þór hefur lagt ríka áherslu á fjölmiðlafrelsi og sjálfstæði fjölmiðla, sem hann segir samræmast vel áherslum Íslands á sviði mannréttinda. Ísland er til að mynda aðili að Fjölmiðlafrelsisbandalaginu (e. Media Freedom Coalition), sem myndað var á síðasta ári í framhaldi af alþjóðlegri ráðstefnu um fjölmiðlafrelsi, en markmið þess er að efla aðgerðir til að sporna við auknum áraásum á fjölmiðlafólk um allan heim, varpa ljósi á mál sem bregðast verður við og styðja ríki sem vilja stíga skref í átt að auknu fjölmiðlafrelsi. Þá gerðist Ísland nýlega aðili að alþjóðaverkefni UNESCO um frjálsa fjölmiðlun í þróunarlöndum, IPDC (e. International Programme for the Development of Communication). 

 

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta