Arðbært kreppuúrræði
Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru veruleiki sem við verðum að horfast í augu við. Heimsbyggðin þarf að takast á við vandann sameiginlega og snúa vörn í sókn. Allir leita góðra lausna og í þeim felast mikil tækifæri. Aðkoma atvinnulífsins er hér lykilþáttur.
Hitaveita sem skiptir sköpum í daglegu lífi næstum allra Íslendinga er ekki gamalt fyrirbæri. Hún varð til í Reykjavík á milli stríða og í olíukreppunni fyrir hálfri öld fylgdu önnur sveitarfélög í kjölfarið. Verð á innfluttri olíu margfaldaðist, framsýnt fólk spýtti í lófana og á undraskömmum tíma vall heitt vatn úr nærliggjandi hverum og borholum í velflest hús.
Kreppuúrræðið sparaði okkur stórfé, jók loftgæði og yljaði landsmönnum. Nú klórar fólk sér í hausnum og spyr hvers vegna ósköpunum við gerðum þetta ekki fyrr?
Hitaveita Reykjavíkur var um tíma ein stærsta jarðvarmaveita í heimi. Umheimurinn tók eftir henni og okkar sérfræðingar áttu þátt í jarðhitaverkefnum víða um heim. Þeirra hlutur í uppbygging hitaveitu í Kína, sem dregur álíka mikið úr útblæstri koltvísýrings og allur árlegur útblástur frá Íslandi, er þekkt stærð.
Í Austur-Afríku hafa íslenskir sérfræðingar verið atkvæðamiklir í jarðhitanýtingu. Keníumenn flytja nú út þekkingu á jarðhita, sem að stórum hluta er sótt til Íslands. Það er dæmi um góða þróunarsamvinnu. Sama má segja um verkefni í Mið-Ameríku.
Í orkumálum á Íslandi er mikil gróska. Virkjun fallvatna og nýting jarðhita eru fyrirferðarmiklar greinar í atvinnulífi okkar sem fjöldi íslenskra sérfræðinga hefur gert að ævistarfi sínu. Við erum þess vegna vel búin undir framtíð orkuskipta, kolefnishlutleysis, orkusparnaðar og geymslu kolefnis svo aðeins fátt sé nefnt. Ég hef lagt áherslu á að nýta þekkingu atvinnulífsins í þróunarsamvinnu meðal annars í gegnum Heimsmarkmiðasjóð atvinnulífsins og ráðgjafalista ráðuneytisins.
Á þeim óvissutímum sem við göngum nú í gegnum er gott að minnast þess að dýpstu kreppur geta reynst drifkraftur framfara. Mikilvægasta framlag okkar til loftslagsmála, nýting jarðvarmans, er eitt gleggsta dæmið um það.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 10. desember 2020