Ný metnaðarfull markmið í loftslagsmálum kynnt
- Uppfært markmið Íslands kveður á um 55% samdrátt í losun gróðarhúsalofttegunda fyrir 2030 í samfloti með Noregi og ESB
- Aðgerðir efldar í kolefnisbindingu og landnotkun til að ná markmiði Íslands um kolefnishlutleysi 2040 og áfangamarkmiði um kolefnishlutleysi losunar á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda í kringum 2030
- Aukin áhersla á loftslagstengd þróunarverkefni
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun kynna ný metnaðarfull markmið Íslands í loftslagsmálum á leiðtogafundi laugardaginn 12. desember. Fundurinn er haldinn á fimm ára afmæli Parísarsáttmálans á vegum Sameinuðu þjóðanna með breskum og frönskum stjórnvöldum, í samvinnu við Chíle og Ítalíu. Tilgangur fundarins er að vekja athygli á loftslagsvánni og skapa vettvang fyrir nýja sókn til að ná markmiðum Parísarsamningsins um að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C og leita leiða til að takmarka hlýnun við 1,5°C.
Samkvæmt Parísarsamningnum skulu ríki heims uppfæra landsmarkmið sín í loftslagsmálum á fimm ára fresti, í fyrsta sinn árið 2020. Á fundinum á laugardag taka þátt leiðtogar þeirra ríkja sem eru reiðubúin til þess að kynna ný og metnaðarfull markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, kolefnishlutleysi og framlög til loftslagsmála í þróunarlöndunum.
Á undanförnum árum hefur Ísland markað sér stöðu sem ríki sem stendur að mörgu leyti framarlega í loftslagsmálum. Á fundinum á laugardaginn er haldið áfram á þeirri braut og kynnt þrjú ný markmið:
- Aukinn samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda. Úr núverandi markmiði um 40% samdrátt m.v. árið 1990 í 55% eða meira til ársins 2030, en það markmið tengist samfloti Íslands með ESB og Noregi ,
- Efldar aðgerðir til að ná markmiði Íslands um um kolefnishlutleysi árið 2040 og áfangamarkmiði um kolefnishlutleysi losunar á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda í kringum árið 2030,
- Aukin áhersla á loftslagstengd þróunarsamvinnuverkefni, einkum á sviði sjálfbærrar orku með tilliti til íslenskrar sérþekkingar.
Í sumar kynntu stjórnvöld uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Áætlunin gerir ráð fyrir að hægt verði að ná meiri samdrætti í losun en krafa er gerð um í núverandi samkomulagi Íslands og Noregs við ESB vegna Parísarsáttmálans. Ísland er því vel undirbúið að takast á hendur ný og metnaðarfyllri markmið í loftlagsmálum. Nauðsynlegt er talið að efla valdar aðgerðir í áætluninni í tengslum við ný markmið og verður tekið tillit til þeirra aðgerða í fjármálaáætlun á komandi vori. Ný markmið Íslands voru kynnt umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í gær.
Nánar er fjallað um einstaka þætti í yfirlýsingu Íslands á leiðtogafundinum um aukinn metnað hér á eftir:
Efldur metnaður í samdrætti í losun
Tilkynning Íslands um efldan metnað varðandi samdrátt í losun tekur mið af stöðu Íslands í samfloti nærri 30 Evrópuríkja innan vébanda Parísarsamningsins. Þar ætla ríkin sameiginlega að ná 40% samdrætti í losun til 2030 m.v. 1990, skv. núverandi skuldbindingu. Ísland og Noregur gerðu samkomulag við ESB árið 2019 um hlut ríkjanna í því sameiginlega markmiði, með hliðsjón af þátttöku ríkjanna tveggja í viðskiptakerfi um losunarheimildir (ETS). Losun innan ETS er hvað Ísland varðar einkum á sviði stóriðju og flugs og þar bera fyrirtæki ábyrgð innan samevrópsks viðskiptakerfis. Önnur losun, s.s. frá samgöngum, sjávarútvegi, landbúnaði og meðferð úrgangs, er á beinni ábyrgð einstakra ríkja, sem taka á sig tölulega skuldbindingu varðandi þá losun. Ekki liggur fyrir hvernig ábyrgð verður skipt á milli ríkja þegar metnaðarstig varðandi samdrátt verður hækkað úr 40% í 55% en núverandi aðgerðaáætlun stjórnvalda tekur mið af því að ná meiri samdrætti í losun en krafist er skv. núverandi skuldbindingum. Noregur hefur gefið sambærilega yfirlýsingu og Ísland um vilja til aukins metnaðar, auk margra ríkja ESB, en ekki liggur fyrir sameiginleg ákvörðun af hálfu ESB.
Lögð er áhersla á að styrkja valdar aðgerðir varðandi samdrátt í losun í tengslum við yfirlýsingu um aukinn metnað. Þær aðgerðir verða útfærðar nánar innan ramma aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum. Efldar aðgerðir á sviði orkuskipta, nýsköpunar og samvinna stjórnvalda og atvinnulífs í loftslagsmálum styðja enn frekar við styrkleika Íslands á sviði loftslagsmála og geta skapað verðmæt störf og sóknarfæri í alþjóðlegu samhengi.
Efling aðgerða í kolefnisbindingu og landnotkun
Tilkynnt verður um áform um eflingu aðgerða á sviði kolefnisbindingar og landnotkunar í því skyni að hraða þróun í átt að kolefnishlutleysi. Parísarsáttmálinn leggur áherslu á aðgerðir sem miða að upptöku kolefnis úr andrúmslofti samhliða minni losun en án slíkra aðgerða er vonlítið að ná markmiði samningsins um kolefnishlutleysi á heimsvísu á seinni hluta þessarar aldar. Ríkisstjórnin hefur sett fram markmið um að Ísland verði kolefnishlutlaust fyrir 2040 en kolefnisbinding í gróðri og jarðvegi er ein öflugasta aðgerðin til að ná því. Framlög til skógræktar og landgræðslu og skyldra aðgerða hafa verið aukin verulega nýverið en nú er tilkynnt um viðbótaraðgerðir. Þær eiga að auðvelda Íslandi að ná markmiðinu um kolefnishlutleysi fyrir 2040, en einnig að ná þeim áfanga að losun á beinni ábyrgð Íslands (þ.e. utan viðskiptakerfisins, ETS) verði kolefnishlutlaus fyrr, árið 2030 eða fljótlega eftir það.
Ísland verður með þessu meðal fremstu ríkja í viðleitni við upptöku kolefnis úr andrúmslofti. Auk kolefnisbindingar í gróðri og jarðvegi hefur hér verið þróuð nýstárleg aðferð við bindingu kolefnis í jarðlögum, sem ætlunin er að þróa frekar.
Aukin áhersla á loftslagstengda þróunarsamvinnu
Í þróunarsamvinnu Íslands verður stóraukin áhersla lögð á loftslagsmál. Sérstaklega er horft hér til verkefna á sviði sjálfbærrar orku með tilliti til íslenskrar sérþekkingar, aðallega jarðhitanýtingar í Austur-Afríku, en einnig er varðar sjálfbæra orku og jafnréttismál. Stutt verður við verkefni á sviði landgræðslu, jafnréttismála og loftslagsbreytinga m.a. í samstarfi við Umhverfisstofnun SÞ (UNEP), Þróunaráætlun SÞ (UNDP), Eyðimerkursáttmála SÞ (UNCCD) og Alþjóðastofnun um endurnýjanlega orku (IRENA).
Fylgjast má með fundinum í streymi á laugardaginn kl. 14.00.