Guðlaugur Þór fundaði með utanríkisráðherra Tékklands
Samskipti ríkjanna, norðurslóðarmál, samstarf á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og EES-samningurinn voru helstu umræðuefnin á símafundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og Tomáš Petříček, utanríkisráðherra Tékklands, sem fram fór í morgun.
„Við vorum sammála um að hvetja til meiri viðskiptatengsla á milli ríkjanna og nýta betur Uppbyggingarsjóð EES. Við munum því standa fyrir rafrænum viðskiptafundi og tengja saman fyrirtæki á sviði nýsköpunar og grænna lausna“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.
Guðlaugur Þór vakti máls á mikilvægi Evrópumarkaða fyrir fiskútflutning Íslands. Vaxandi eftirspurn væri eftir íslenskum sjávarafurðum í Evrópusambandsríkjunum og því tímabært að bæta markaðsaðgang fyrir þær. Þá ræddu þeir landbúnaðarviðskipti Íslands og ESB og nauðsyn þess að tryggja jafnvægi milli samningsaðila landbúnaðarsamningsins.
Þá ræddu ráðherrarnir formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og möguleika á nánara samstarfi ríkjanna í norðurslóðamálum.