Strandríkin sammála um heildarafla í makríl
Viðræður strandríkjanna Íslands, Bretlands, Evrópusambandsins, Færeyja, Grænlands og Noregs, um stjórn veiða úr stofni makríls í Norðaustur Atlantshafi, fóru fram dagana 26.-27. október og 25. nóvember sl. Eins og kunnugt er hafa Evrópusambandið, Færeyjar og Noregur haft með sér samkomulag um skiptingu aflaheimilda frá árinu 2014 en það rennur sitt skeið í árslok og hafa þessir aðilar ekki náð samkomulagi um áframhald þess. Á fundunum náðist ekkert samkomulag um skiptingu aflaheimilda.
Öll strandríkin hafa nú í desember skrifað undir samkomulag um sameiginlegt viðmið við ákvörðun heildarafla fyrir árið 2021, en hvert þeirra mun væntanlega taka einhliða ákvörðun um aflaheimildir þar sem ekkert samkomulag er um skiptingu. Viðmiðið er 852.284 tonn, sem er í fullu samræmi við ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknarráðsins, ICES. Staðan varðandi alþjóðlega stjórn makrílveiða er því með sambærilegum hætti hvað varðar norsk-íslenska síld og kolmunna, þar sem einnig er samkomulag um viðmið varðandi heildarafla á grunni ráðgjafar ICES en ekkert samkomulag er um skiptingu aflaheimilda. Jafnframt hafa aðilar einsett sér að starfa allir saman að setningu nýrrar aflareglu fyrir 1. júlí 2020.
Hvað varðar stóra viðfangsefnið um skiptingu aflaheimilda, þá hafa strandríkin enn fremur sammælst um að hefja viðræður á fyrri helmingi næsta árs og munu Færeyingar boða til fundar þar að lútandi. Ísland mun verða virkur þátttakandi í þessum viðræðum, með þá stefnu að vinna að samkomulagi sem öll strandríkin verði aðilar að.