Hoppa yfir valmynd
17. desember 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Aðgerðaáætlun um endurhæfingu til fimm ára

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndStjórnarráðið

Heilbrigðisráðherra hefur sett fram aðgerðaáætlun um endurhæfingu til ársins 2025. Grundvöllur áætlunarinnar er að endurhæfingarhugtakið og stig endurhæfingar verði skilgreind í reglugerð í samræmi við skilgreiningar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, að öll endurhæfingarstarfsemi í landinu falli undir ábyrgðarsvið heilbrigðisráðuneytisins og að sett verði á fót endurhæfingarráð. Rík áhersla er lögð á aukið hlutverk heilsugæslu í endurhæfingu og stefnt er að því að stórauka fjarheilbrigðisþjónustu í endurhæfingu.

Aðgerðaáætlunin byggist á tillögum starfshóps sem heilbrigðisráðherra fól að móta tillögur að endurhæfingarstefnu og rúmlega 50 umsögnum sem bárust þegar skýrsla hópsins var birt í samráðsgátt. Helstu efnisatriði aðgerðaáætlunarinnar eru eftirfarandi:

Endurhæfingarteymi í öllum heilbrigðisumdæmum

Samkvæmt áætluninni verður endurhæfing aldraðra stóraukin í heilsugæslunni og endurhæfingarteymum komið á fót í öllum heilbrigðisumdæmum, eitt í hverju umdæmi utan höfuðborgarsvæðisins þar sem teymin verða tvö til þrjú. Gert er ráð fyrir að fyrstu teymin taki til starfa árið 2022 og öll teymin fyrir lok árs 2024. Hreyfistjórar sem nú starfa í heilsugæslunni verða hluti teymanna. Áætlaður kostnaður við hvert teymi eru 50–80 milljónir króna.

Sérhæfð endurhæfingarmiðstöð fyrir börn

Sett verður á fót sérstök endurhæfingarmiðstöð fyrir börn. Miðstöðin verður ráðgefandi þekkingarsetur fyrir þjónustuveitendur um allt land. Gert er ráð fyrir að hún taki til starfa árið 2025.

Miðstöð þróunar og þekkingar tekur til starfa árið 2021

Á næsta ári verður stofnuð miðstöð þróunar og þekkingar í endurhæfingu fullorðinna sem einnig mun annast þjálfun starfsfólks. Miðstöðin verður sett á fót í samstarfi þeirra sem helst sinna endurhæfingu hér á landi, þar á meðal Reykjalundar og Grensásdeildar Landspítala. Meðal hlutverka hennar verður að skapa tækifæri til aukinnar fræðslu á sviði endurhæfingar. Gera þarf endurhæfingu betur skil í grunnnámi heilbrigðisstétta og styrkja námsmöguleika heilbrigðisstarfsfólks sem hyggst starfa við endurhæfingu.

Samþætt tilvísanakerfi

Gert er ráð fyrir að tilvísanakerfi fyrir endurhæfingu í heilbrigðisþjónustu og úrræðum vinnumálakerfisins verði samþætt og að biðlisti fyrir endurhæfingu verði miðlægur.

Afgreiðsla og úthlutun hjálpartækja á einum stað
Áformað er að gera samning milli þeirra sem nú afgreiða hjálpartæki sem feli í sér afgreiðsla og úthlutun hjálpartækja verði sameiginleg þannig að einn aðili annist umsýslu hjálpartækja, umsóknir og afgreiðslu.

Aðgerðaáætlunin er byggð upp með hliðsjón af stefnumiðum heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Í áætluninni eru sett fram 20 markmið og 36 aðgerðir. Markmiðin eru mælanleg og aðgerðir tímasettar og kostnaðargreindar eftir því sem unnt er.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta