Hoppa yfir valmynd
17. desember 2020 Forsætisráðuneytið

Nýr kynningarvefur Grænvangs

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Sigurður Hannesson, stjórnarformaður Grænvangs, og Eggert Benedikt Guðmundsson, forstöðumaður Grænvangs,til hægri er Kamma Thordarson, verkefnisstjóri kynninga hjá Grænvangi og Birta Kristín Helgadóttir, verkefnisstjóri greininga hjá Grænvangi, lengst til vinstri.   - mynd

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra opnaði í dag nýjan kynningarvef Green by Iceland þar sem sérþekkingu Íslands á sviði endurnýjanlegrar orku og grænna lausna er miðlað til fyrirtækja og stjórnvalda á erlendum vettvangi. Green by Iceland er sameiginlegt vörumerki Grænvangs, samstarfsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs og Íslandsstofu sem hefur það meginmarkmið að kynna grænar íslenskar lausnir og sjálfbæra nýtingu auðlinda.

Á nýjum vef Green by Iceland er m.a. að finna leitarvél sem heldur utan um íslenskar grænar lausnir til útflutnings, upplýsingar um íslenska orkuþekkingu og umfjöllun um markmið Íslands í loftslagsmálum. Nýja vefsíðan var sem fyrr segir opnuð formlega í dag með viðburði á vefnum þar sem forsætisráðherra flutti ávarp auk þess sem Sigurður Hannesson stjórnarformaður Grænvangs og Eggert Benediktsson forstöðumaður fluttu erindi. Ennfremur voru innslög frá aðildarfyrirtækjum Grænvangs og sendiráðum Íslands í Kína, Japan, Bretlandi og Bandaríkjunum.

Grænvangur er samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál og grænar lausnir sem var formlega stofnaður í maí 2019. Hlutverk Grænvangs er að efla samstarf atvinnulífs og stjórnvalda við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og styðja við markmið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040. Grænvangur vinnur með íslenskum fyrirtækjum að markaðssetningu grænna lausna á alþjóðamarkaði undir merkjum Green by Iceland og kynnir framlag Íslands í loftslagsmálum innanlands og utan. Fyrir hönd stjórnvalda eiga forsætisráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið, utanríkisráðuneytið og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið aðild að Grænvangi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta