Hoppa yfir valmynd
18. desember 2020 Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson tók þátt í fundi NB8-ríkjanna

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, á fundi NB8-ríkjanna í dag. - mynd

Þróun mála á alþjóðavettvangi og í Evrópu og aukið mikilvægi tengslanna yfir Atlantshafið var efst á baugi á fjarfundi utanríkisráðherra NB8-ríkjanna í dag.

Á fundinum ræddu ráðherrarnir mikilvægi samstarfsins við Bandaríkin á sviði öryggis- og varnarmála og á grundvelli sameiginlegra lýðræðislegra gilda. Ástandið í Hvíta-Rússlandi var einnig rætt og ítrekuðu ráðherrar Norðurlandanna fimm og Eystrasaltsríkjanna þriggja sem mynda NB8-hópinn stuðning sinn við lýðræði og mannréttindi þar í landi. Má í því sambandi rifja upp sameiginlega yfirlýsingu NB8-ráðherranna frá því fyrr á þessu ári. Þá voru samskiptin við Tyrkland jafnframt á dagskrá en einnig bar deiluna í Nagorno-Karabakh á góma.

Útganga Bretlands úr Evrópusambandinu kom einnig til tals. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra kvaðst vonast til að samningar tækjust um útgönguna. „Líklega hefur samstaða Evrópuríkja sjaldan skipt meira máli en einmitt nú þegar sótt er að þeim gildum sem vestræn þjóðfélög hefur lengi byggt á, eins og mannréttindum, lýðræði og réttarríkinu,“ sagði Guðlaugur Þór.

Kynjajafnrétti var sömuleiðis í brennidepli á fundinum og lýstu ráðherrarnir áhyggjum sínum af merkjum um afturför, jafnvel í nágrannaríkjum, og voru sammála um að standa saman vörð um þá alþjóðlegu sátt sem lengi hefur ríkt um mikilvægi þess að mannréttindi kvenna séu virt. Einnig var rætt um stöðu mála í tengslum við heimsfaraldur kórónuveirunnar. Í því samhengi viðraði Guðlaugur Þór hugmyndir um hvernig stuðla mætti að auknum fjölda fjarfunda á alþjóðavettvangi. „Það má draga ýmsa lærdóma af kórónuveirufaraldrinum og einn af þeim er hvernig fjarfundir hafa gert okkur kleift að ræða saman mjög reglulega um leið og við drögum bæði úr kostnaði og kolefnisfótspori. Ég tel einsýnt að þegar faraldrinum linnir höldum við þessu fyrirkomulagi að verulegu leyti,“ sagði ráðherra að fundi loknum

Löndin átta skiptast á að fara með formennsku í samstarfi ríkjanna, sem sett var á stofn árið 1992. Eistar hafa verið í formennsku á árinu sem nú er senn að ljúka og taka Finnar við formennsku á komandi ári.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta