Hoppa yfir valmynd
21. desember 2020 Utanríkisráðuneytið

Góður samhljómur á utanríkisráðherrafundi Norðurlanda og Kanada

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tók í dag þátt í fjarfundi utanríkisráðherra Norðurlanda og Kanada. Samskipti Kanada og Norðurlandanna og mikilvægi tengslanna yfir Atlantshafið voru þar efst á baugi. 

Í viðræðum norrænu ráðherranna við François-Philippe Champagne, utanríkisráðherra Kanada voru samskipti þessara sex ríkja aðalumræðuefnið en þróun mála í Evrópu kom einnig til tals, bæði hvað varðar baráttuna gegn heimsfaraldrinum og stöðuna í viðræðum um útgöngusamning Bretlands úr Evrópusambandinu.

Góður samhljómur var í máli norrænu ráðherranna og kanadíska ráðherrans. Lögðu allir áherslu á að ríkin sex deildu mjög afstöðu til helstu álitaefna samtímans og gætu unnið enn betur saman í framtíðinni. Sambandið yfir Atlantshafið væri þess eðlis að ríkin ættu að geta lagt sín lóð á vogarskálar andspænis erfiðum áskorunum, til dæmis í baráttunni fyrir því að efla mannréttindi og virðingu fyrir lýðræði, í loftlagsmálum og norðurslóðamálum. Jafnframt var rætt um sambandið Bandaríkin og hvers megi vænta af nýrri ríkisstjórn þar.

„Það var mikilvægt að finna á þessum fundi hvað við erum samstíga enda næg verkefni framundan,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. „Þá er sérlega jákvætt hversu traust samband okkar Norðurlandanna er við Kanada og ýmis tækifæri til að efla það enn frekar enda hvíla þessi samfélög á sameiginlegum gildum og deila um margt hagsmunum, til dæmis á sviði loftslagsmála og norðurslóða.“ 

Norðurlöndin hafa fundað mjög reglulega á þessu ári og samstaða var um það á fundinum í dag að halda áfram að eiga náið samráð á nýju ári, ekki aðeins um heimsfaraldurinn heldur einnig brýn hagsmunamál, s.s. norðurslóðamál, jafnréttismál og varnar- og öryggismál. Í þeim efnum liggja fyrir tillögur sem settar voru fram í skýrslu sem Björn Bjarnason gerði fyrir norrænu utanríkisráðherrana fimm og út kom fyrr á þessu ári.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta