Hoppa yfir valmynd
22. desember 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Greinargerð um ráðgerða sölumeðferð á hlutum ríkisins í Íslandsbanka

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur útbúið greinargerð um ráðgerða sölumeðferð á hlutum ríkisins í Íslandsbanka í samræmi við ákvæði laga.

Greinagerðin og fylgigögn hafa verið send fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og þess óskað að umsagnir nefndanna liggi fyrir eigi síðar en þann 20. janúar 2021. 

Í greinargerðinni koma fram upplýsingar um helstu markmið með sölu eignarhlutarins, hvaða söluaðferð verði beitt og hvernig sölumeðferð verði háttað að öðru leyti.

Þá hefur jafnframt verið óskað eftir formlegri umsögn frá Seðlabanka Íslands um jafnræði bjóðenda, líkleg áhrif sölu á gjaldeyrismarkað, gjaldeyrisforða og laust fé í umferð.

Eftir að umsagnir nefndanna og Seðlabanka Íslands liggja fyrir verður tekin endanleg ákvörðun um hvort sölumeðferð eignarhlutarins verði hafin í samræmi við efni greinargerðarinnar. Ráðherra getur í ákvörðun sinni gert breytingar á einstökum þáttum í fyrirhugaðri sölumeðferð, m.a. að teknu tilliti til athugasemda fjárlaganefndar eða efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis við greinargerðina.

Áform í samræmi við stjórnarsáttmála og eigendastefnu

Áformin um sölu eignarhlutanna eru í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og eigendastefnu ríkisins. Stefnt er að því að selja hlutina í almennu útboði og skrá öll hlutabréf í bankanum í kjölfarið á skipulegan verðbréfamarkað á Íslandi. Helstu markmið með sölu ríkisins á hlutum þess í bankanum eru eftirfarandi:

  •  að minnka áhættu ríkisins af svo stórum eignarhlut í fjármálakerfinu;
  •  að efla virka samkeppni á fjármálamarkaði;
  • að hámarka endurheimtur ríkissjóðs af eignarhaldinu og sölu á hlutum;
  • að stuðla að fjölbreyttu, heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi til lengri tíma;
  • að auka fjárfestingarmöguleika fyrir innlenda einstaklinga og fagfjárfesta; og ekki síst
  •  að minnka skuldsetningu eða auka svigrúm ríkisins til samfélagslega arðbærra fjárfestinga.

Fylgigögn

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta