Ráðherra gerði samning um verkefnin Gróður í borg og bæ og Kolefnisbindingu 2020
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur gert samninga við Samband garðyrkjubænda um breytingar á starfsskilyrðum framleiðenda garðyrkjuafurða. Samningarnir snúa að loftslagsmálum og kolefnisbindingu.
Sambandi garðyrkjubænda hefur verið falið að stýra verkefnunum og með því uppfylla og styðja við breytingar á samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða sem voru undirrituð fyrr á árinu. Um er að ræða verkefnin Gróður í borg og bæ sem er ætlað að hvetja almenning til að huga að kolefnisbindingu með heimilisgarðyrkju og verkefnið Kolefnisbinding 2020 sem er hluti af Kolefnisbrúnni og er ætlað bændum.
Gróður í borg og bæ
Sambandi garðyrkjubænda er falið að hleypa af stokkunum átaksverkefninu Gróður í borg og bæ.
Verkefnið miðar að því að auka þekkingu, áhuga og þátttöku almennings á ræktun í því skyni að auka kolefnisbindingu. Með verkefninu er almenningur hvattur til umhugsunar og þátttöku í verkefnum á sviði kolefnisbindingar með eigin ræktun. Boðskapur verkefnisins: Allt skiptir máli – allir geta lagt til. Þá verður gefinn kostur á fræðslu og aðgengilegum á áhugaverðum upplýsingum um hvað hægt er að rækta, hvar og hvaða áhrif ræktun þeirra hefur til kolefnisbindingar. Verkefnið miðar þess vegna ekki síst að þeim sem búa í þéttbýli en geta engu að síður lagt sitt til kolefnisbindingar með ræktun í görðum, frístundalóðum, svölum, í pottum og víðar.
Kolefnisbinding 2020
Sambandi garðyrkjubænda er falið að kynna Kolefnisbrúna fyrir garðyrkjubændum og/eða framleiðendum garð- og skógarplantna í því skyni að þeir geti unnið að kolefnisbindingu í sínum eigin rekstri og jafnvel boðið þá þjónustu til annarra. Einnig er markmið verkefnisins að auka framleiðslu á plöntum til kolefnisbindingar á Íslandi með skynsamlegum og fyrirsjáanlegum hætti.
Verkefnið Kolefnisbrúin snýst um að ræktendur um land allt geti með plöntun og umhirðu skóga, kolefnisjafnað sína eigin starfsemi og selt þá þjónustu til annarra, jafnvel til stórra og meðalstórra fyrirtækja. Lögð er áhersla á að ferlið sé vottað og úttektaraðilar sannreyni að umsamin ræktun fari fram með tilheyrandi kolefnisbindingu. Kolefnisbrúnni er í heild ætlað að stuðla að umfangsmikilli kolefnisbindingu um land allt til að mæta skuldbindingum Íslands í alþjóðasamfélaginu, heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og stefnumörkun stjórnvalda á borð við aðgerðaáætlun í loftlagsmálum. Með Kolefnisbrúnni skapast tækifæri til atvinnusköpunar um land allt þar sem til verða störf við plöntuframleiðslu, skógrækt og skógarnytjar.