Breytingar þegar aðlögunartímabilinu lýkur um áramótin
Grundvallarbreyting verður á sambandi Íslands og Bretlands nú um áramótin þegar aðlögunartímabili vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu lýkur. Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra áréttaði í blaðagreinum í morgun að þótt allir lykilhagsmunir hefðu verið tryggðir væri að ýmsu að hyggja vegna þessara tímamóta.
Á miðnætti á gamlárskvöld lýkur aðlögunartímabilinu vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu sem þýðir meðal annars að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) gildir ekki lengur um Bretland frá og með 1. janúar 2021. Íslendingar þurfa að huga að nokkrum atriðum í þessu sambandi, sérstaklega þeir sem búa á Bretlandi eða hyggjast flytja þangað á næstunni og þeir sem stunda viðskipti við Bretland eða eiga þar annara hagsmuna að gæta.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, ritaði greinar í annars vegar Morgunblaðið og hins vegar í Fréttablaðið í dag af þessu tilefni þar sem hann undirstrikaði að grundvallarhagsmunir Íslands hefðu verið tryggðir.
„Í því sambandi vil ég sérstaklega nefna bráðabirgðafríverslunarsamning ríkjanna sem tryggir óbreytt tollkjör vegna vöruviðskipta við þennan mikilvæga útflutningsmarkað okkar og loftferðasamninginn sem þýðir að samgöngur á milli ríkjanna verða áfram greiðar. Þá hafa samningar verið gerðir um búsetu fólks og heimsóknir án vegabréfaáritunar,“ segir í greininni í Fréttablaðinu. Þá standa viðræður um fríverslunarsamning við Bretland til framtíðar nú yfir og lýkur þeim að óbreyttu fljótlega á komandi ári.
Engu að síður sé að mörgu að hyggja og því hefur utanríkisráðuneytið, í samvinnu við viðkomandi ráðuneyti og stofnanir unnið að því upplýsa fyrirtæki og almenning um hvað mun breytast áramótin og hvað ekki. Að ýmsu er að hyggja í því sambandi. Sem dæmi má nefna að þeir sem flytja til Bretlands frá og með áramótum þurfa að sækja um dvalarleyfi og uppfylla ákveðin skilyrði samkvæmt nýju innflytjendakerfi Bretlands. Samningaviðræður standa yfir um sérstök tveggja ára dvalarleyfi fyrir ungmenni sem vilja flytjast á milli Íslands og Bretlands.
Þeir sem stunda viðskipti eða hafa tengsl við Bretland eru hvattir til að kynna sér sérstakt Brexit-vefsvæði á Stjórnarráðsvefnum þar sem eru einnig tenglar inn á aðrar gagnlegar síður t.d. hjá MAST og Skattinum. Eins má alltaf hafa samband í síma eða með tölvupósti. Svarað er allan sólahringinn í neyðarsíma ráðuneytisins 545 0112 og sérstakur viðbragðshópur verður á vakt vegna áríðandi fyrirspurna sem tengjast útgöngunni.
Að neðan er gátlisti fyrir fólk og fyrirtæki í landinu um það helsta sem breytist nú um áramótin og það sem verður óbreytt.