Hoppa yfir valmynd
13. janúar 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Alzheimersamtökunum veittur 7 milljóna króna fræðslustyrkur

Málefni aldraðra - mynd

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur veitt Alzheimersamtökunum 7 milljóna króna styrk til verkefnis um jafningjafræðslu á hjúkrunarheimilum til að styrkja starfsfólk sem sinnir umönnun fólks með heilabilunarsjúkdóma. Styrkveitingin er liður í framkvæmd aðgerðaáætlunar heilbrigðisráðuneytisins vegna þjónustu við einstaklinga með heilabilun. Alzheimersamtökin fengu 15 milljóna króna styrk á liðnu ári til sama verkefnis sem hefur farið vel af stað. Styrkurinn sem nú er veittur er ætlaður til að halda áfram vinnu við verkefnið út árið 2021. Áður hafði ráðherra veitt Háskólanum á Akureyri styrk til að koma á fót sérnámi fyrir ráðgjafa á sviði heilabilunar og er það einnig liður í framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar.

Verkefnið jafningafræðsla á hjúkrunarheimilum er í ætt við t.d. danska verkefnið Demens rejsehold, þar sem teymi fer um öll hjúkrunarheimili og virkjar starfsfólk þar í jafningjafræðslu um umönnun einstaklinga með heilabilun. Í umsögnum í samráðsgátt um stefnu í málefnum einstaklinga með heilabilun var mikið kallað eftir stuðningi inn á hjúkrunarheimilin til að styrkja starfsfólk í umönnun einstaklinga með heilabilun. Gert er ráð fyrir að jafningjafræðslan fari af stað á öllum hjúkrunarheimilum landsins undir stjórn Alzheimersamtakanna. Í þessu verkefni er byggt á þekkingu og færni starfsfólks hjúkrunarheimila burt séð frá formlegri menntun þess. 

Sérnám fyrir ráðgjafa á sviði heilabilunar 

Heilbrigðisráðherra veitti Háskólanum á Akureyri 7 milljóna króna styrk í lok nýliðins árs til að koma á fót sérnámi fyrir ráðgjafa á sviði heilabilunar. Námið verður 60 ETCS einingar á meistarastigi og lýkur með diplóma. Markmiðið er að auka sérþekkingu á þessu sviði hér á landi í samræmi við aðgerðaáætlun í þjónustu við fólk með heilabilun til ársins 2025. Háskólinn á Akureyri hefur kynnt ráðuneytinu drög að námsskrá og reiknað er með að námið geti byggst ofan á grunnnám í hjúkrunarfræði, iðjuþjálfun, félagsráðgjöf eða sálfræði. Námið skapar einnig möguleika á að námskeið þess nýtist öðrum fagstéttum eins og lögreglumönnum og öðrum meistaranámsnemum. Stefnt er að því að námið hefjist haustið 2022.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta