Sálfræðiþjónusta við Seyðfirðinga efld með auknu fjármagni
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að veita Heilbrigðisstofnun Austurlands 17 milljóna króna viðbótarfjárframlag til að efla geðheilbrigðisþjónustu í þágu íbúa Seyðisfjarðar í kjölfar hamfaranna sem þar urðu 18. desember síðastliðinn. Starfsfólk heilbrigðisstofnunarinnar hefur fundið fyrir verulega aukinni þörf fólks fyrir áfallameðferð og þjónustu geðteymis eftir atburðinn. Fagfólk telur mikilvægt að bregðast skjótt við með aukinni þjónustu til að fyrirbyggja að einstaklingar sem þurfa á stuðningi að halda þrói með sér alvarlega og langvinna áfallastreituröskun.