Áform um lögfestingu markmiðs um kolefnishlutleysi í samráðsgátt
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur sett til kynningar í samráðsgátt áform um að lögfesta markmið um kolefnishlutleysi. Þetta er í samræmi við markmið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040, sem sett er fram í Stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og kemur einnig fram í aðgerðaáætlun í Loftslagsmálum sem útgefin var árið 2018 og aftur 2020.
Áformað er að leggja fram frumvarp til breytinga á loftslagslögum þar sem markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 verði lögfest.
Kolefnishlutleysi lýsir ástandi þar sem jafnvægi hefur náðst milli losunar og bindingar gróðurhúsalofttegunda. Það er lykilþáttur í Parísarsamningnum og nauðsynlegt til að ná markmiði samningsins um að halda hnattrænni hlýnun jarðar innan við 2°C og eins nálægt 1,5°C eins og hægt er.
Gert er ráð fyrir nánari útfærslu á því með hvaða hætti markmiði um kolefnishlutleysi verði náð árið 2040 í vegvísi sem stjórnvöld munu vinna í víðtæku samráði.
Á leiðtogafundi sem SÞ, Bretland og Frakkland stóðu að í desember 2020 voru ný markmið Íslands í loftslagsmálum kynnt. Markmiðin felast í því að samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda verði aukinn úr núverandi markmiði um 40% samdrátt miðað við losun árið 1990 í 55% samdrátt eða meira til ársins 2030 í samfloti með ESB og Noregi. Einnig var tilkynnt að aðgerðir í landnotkun verði efldar sem aftur munu auðvelda Íslandi að ná settu markmiði um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Jafnframt mun Ísland setja aukna áherslu á loftslagstengd þróunarsamvinnuverkefni.
Umsögnum skal skilað í Samráðsgátt Stjórnarráðsins eigi síðar en 1. febrúar næstkomandi.
Áform um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 70/2012 um loftslagsmál (markmið um kolefnishlutleysi)