Hoppa yfir valmynd
19. janúar 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Heimsfundur kvennasamtaka sem berjast gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi í Hörpu í ágúst 2021

Alþjóðleg kvennasamtök sem berjast gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni munu halda heimsfund í Hörpu 16.-18. ágúst næstkomandi undir yfirskriftinni Reykjavík Dialogue, renewing activism to end violence against women.

Ríkisstjórnin samþykkti á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars 2020, að styrkja fundinn. Þá hefur  Reykjavíkurborg einnig samþykkt að styðja við fundinn.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

”Kynferðislegt og kynbundið ofbeldi er skýrasta birtingarmynd misréttis og bæði orsök þess og afleiðing. Barátta kvennahreyfingarinnar og samstarf hennar við samtök víða um heim hefur sannarlega verið íslensku samfélagi til heilla. Þessi fundur er liður í sameiginlegri baráttu okkar til að uppræta hverskyns kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni gegn konum og stúlkum í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.”

Heimsfundur af þessum toga var síðast haldinn í Brighton á Englandi 1996, ári eftir að Peking-yfirlýsingin um kynjajafnrétti var samþykkt á fjórðu kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Tuttugu og fimm árum áður, eða 1976, höfðu samtök kvennahreyfingarinnar komið saman til baráttufundar í Brussel þegar alþjóðlega ráðstefnan International Tribunal on Crimes against Women var haldin við upphaf kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna. Og nú 25 árum síðar þykir við hæfi að  kvennasamtök komi saman og taki þátt í umræðu um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi gegn konum á alþjóðavettvangi. 

Alþjóðleg verkefnisstjórn með þátttöku fulltrúa hvaðanæva að skipuleggur dagskrá fundarins og eru Stígamót fulltrúar Íslands. Í tengslum við fundinn verður haldin ráðstefna sem skipulögð er í samstarfi við forsætisráðuneytið og Rannsóknastofu í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands.

Viðburðunum verða streymt og verður þátttaka í Hörpu háð þróun heimsfaraldurs COVID-19. 

Allar nánari upplýsingar má nálgast hér: reykjavikdialogue.is

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
16. Friður og réttlæti
3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta