Hoppa yfir valmynd
19. janúar 2021 Utanríkisráðuneytið

Vinnustofa um tækifæri og áskoranir hjá Uppbyggingarsjóði EES

Um 100 manns víðs vegar að af landinu, úr atvinnulífi og stjórnsýslu, tóku þátt í stafrænni vinnustofu um tækifæri og áskoranir fyrir sveitarfélög og atvinnulíf hjá Uppbyggingarsjóði EES. Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og utanríkisráðuneytið stóðu að vinnustofunni í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, Íslandsstofu, Rannís og Orkustofnun.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarmálaráðherra, flutti opnunarávarp. Hann sagðist lengi hafa talað fyrir því að Íslendingar þyrftu að efla verulega þátttöku sína í samstarfsverkefnum sjóðsins og að hann vonaði að vinnustofan yrði til þess að þekking á Uppbyggingarsjóðnum og þátttaka í verkefnum á hans vegum myndu aukast. „Til að svo megi verða, er mikilvægt að þið vitið af þeim tækifærum sem er að finna í verkefnum á vegum sjóðsins,“ sagði Guðlaugur Þór meðal annars.

Þátttakendur í fyrri verkefnum hafa nefnt að ávinningur af því að taka þátt felist meðal annars í stækkun tengslanets með samskiptum við fjölbreyttan og alþjóðlegan hóp samstarfsaðila, aukinni þekkingarmiðlun ásamt kosti þess að kynnast nýju starfs- og menningarumhverfi. Greining á þátttökuaðilum í verkefnum á vegum sjóðsins hefur hins vegar leitt í ljós að stór meirihluti þeirra eru ríkisstofnanir og félagasamtök. Þátttaka fyrirtækja hefur verið hlutfallslega lítil og einskorðast að mestu við verkefni á sviði fræðslu, menningar og orkumála. Í ljósi þess er nauðsynlegt að skoða hvernig hægt er að auka þátttöku annarra aðila, eins og atvinnulífsins og sveitarfélaga, í verkefnum á vegum sjóðsins og þá sérstaklega þeim sem snúa að áherslusviðum Íslands. Efla þarf þátttöku íslenskra aðila sem ekki hafa áður hlotið tækifæri til alþjóðlegs samstarfs. Það getur opnað á áframhaldandi samstarf íslenskra stofnana, samtaka og fyrirtækja á ýmsum sviðum auk þess sem það veitir möguleika á stofnun viðskiptatengsla og opnun nýrra markaða.

Hér fyrir neðan má nálgast upptöku af opnunarmálstofu fundarins:

Þá er hægt að nálgast nánari upplýsingar um Uppbyggingarsjóð EES á vefsíðu utanríkisráðuneytisins og fyrir áhugasama má nálgast nýlega skýrslu Alþjóðamálastofnunar um þátttöku íslenskra aðila í samstarfi á vegum sjóðsins á vefsíðu Alþjóðamálstofnunar.

Á vefsíðum Rannís og Orkustofnunar er einnig að finna upplýsingar um útboð sem eru í gangi hverju sinni. Þá veitir Brynhildur Georgsdóttir upplýsingar varðandi þjónustuborð sem verið er að hanna fyrir atvinnulíf hjá Íslandsstofu. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta