Reglugerð um starfsemi Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í samráðsgátt
Drög að nýrri reglugerð um starfsemi Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila inn umsögn er til og með 1. febrúar nk.
Með drögunum er lagt til að sett verði ný heildarreglugerð um starfsemi Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem felli úr gildi eldri reglugerð nr. 460/2018.
Lagt er til að með reglugerðinni verði Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga veitt heimild á árunum 2021 og 2022 til að úthluta samtals kr. 363 milljónum í sérstök framlög sem nema 50% af heildarkostnaði tiltekinna framkvæmda sem lúta að eftirtöldum verkefnum:
- Úrbætur á aðgengi fatlaðs fólks að byggingum í eigu sveitarfélaga og byggingum í eigu annarra aðila þar sem um er að ræða samvinnuverkefni sveitarfélaga og einkaaðila.
- Úrbætur þannig að biðstöðvar almenningssamgangna séu aðgengilegar öllu fötluðu fólki svo og útivistarsvæði og almenningsgarðar.
- Úrbætur sem lúta að viðeigandi aðlögun á vinnustöðum fatlaðs fólks.