Stærsta úthlutun Rannsóknasjóðs frá upphafi
Rannsóknasjóður er leiðandi samkeppnissjóður hér á landi sem hefur verið starfræktur frá árinu 2004. Hlutverk sjóðsins er að styrkja vísindarannsóknir og rannsóknartengt framhaldsnám á Íslandi.
Framlög hækka
Síðustu ár hafa fjárframlög til sjóðsins verið um 2,5 milljarðar kr. en í samræmi við stefnu Vísinda- og tækniráðs sem samþykkt var á síðasta ári voru fjárveitingar til sjóðsins hækkaðar í 3,7 milljarða kr. fyrir þetta ár. Árið 2020 var einnig veitt aukaframlag til sjóðsins vegna áhrifa COVID-19, alls 775,6 milljónum kr.Styrkveitingar til nýrra verkefna nema á þessu ári 1,3 milljörðum kr., en þar sem verkefnin eru almennt til þriggja ára verður heildarframlag vegna þeirra um 4 milljarðar kr. á árunum 2021-2023. Auk nýrra verkefna koma tæplega 2 milljarðar kr. til greiðslu á árinu vegna styrkja til eldri verkefna. Rannsóknasjóður styrkir einnig þátttöku íslenskra aðila í mörgum alþjóðlega samfjármögnuðum verkefnum.
Öflugt vísindastarf
Umsóknum til sjóðsins hefur fjölgað undanfarin ár og hefur árangurshlutfall úthlutunar farið lækkandi og var þörfin fyrir auknar fjárveitingar því mikil. Alls bárust sjóðnum 402 umsóknir, sem er fjölgun frá fyrri árum, en þrátt fyrir það er árangurshlutfall í ár rúm 20% og hefur ekki verið hærra síðan 2017. Er þessi mikla eftirspurn til marks um öflugt vísindastarf á Íslandi.
Sjóðurinn styður verkefni á öllum sviðum vísinda og veitir fjórar tegundir styrkja til doktorsnema, nýdoktora, rannsóknaverkefna og öndvegisstyrki til stórra verkefna sem skara fram úr á sínu sviði og hafa alþjóðlega tengingu.
Fjölbreytt verkefni
Níu öndvegisstyrkir eru veittir að þessu sinni og hefur aldrei áður verið úthlutað jafn mörgum slíkum styrkjum. Hver öndvegisstyrkur er allt að 150 milljónir kr. á þriggja ára tímabili.
Rannsóknasjóður veitir styrki samkvæmt almennum áherslum Vísinda- og tækniráðs og á grundvelli faglegs mats á gæðum rannsóknarverkefna, færni þeirra einstaklinga sem stunda rannsóknirnar og aðstöðu þeirra til að sinna verkefninu. Umsóknarfrestur er einu sinni á ári. Nánari upplýsingar um verkefni Rannsóknasjóðs og annarra innlendra samkeppnissjóða eru á vef Rannís.