Umfangsmikil þjónusta í endurgerðu húsnæði Landspítala á Eiríksstöðum
Landspítali tók fyrir helgi við 3.400 fermetra húsnæði við Eiríksgötu 5 eftir gagngerar breytingar og endurbætur sem gera kleift að sinna þar fjölbreyttri klínískri starfsemi á vegum spítalans. Í húsinu verður veitt göngudeildarþjónusta vegna gigtarsjúkdóma, innkirtlasjúkdóma, erfðaráðgjafar og augnsjúkdóma. Þar verður jafnframt heildstæð göngudeildarþjónusta við konur með krabbamein í brjósti, allt frá skimun til eftirlits að lokinni meðferð. Í húsnæðinu sem kallast Eiríksstaðir eru sérhæfð rými fyrir þessa starfsemi, s.s. skurðstofur, röntgenstofur, skimunaraðstaða, skoðunarrými og viðtalsherbergi.
Skrifstofur Landspítala voru á Eiríksstöðum um 20 ára skeið, en þær hafa nú verið fluttar í Skaftahlíð 24. Undirbúningur að opnun göngudeilda á Eiríksstöðum hófst í október árið 2018 og framkvæmdir rétt um ári síðar. Fasteignafélagið Reitir er eigandi Eiríksstaða en byggingarverktakinn J.E. Skjanni sá um framkvæmdirnar.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, segir göngudeildarhúsið Eiríksstaði ómissandi hluta af uppbyggingu og endurnýjun húsnæðis Landspítala; „svo að hann megi standa undir nafni sem þjóðarsjúkrahús og starfa við aðstæður sem sambornar eru sjúklingum og starfsfólki í hátæknivæddum samtímanum með ríkar kröfur til gæða, öryggis og þjónustustigs.“ Páll segir að í húsinu muni gefast tækifæri til að þróa samvinnu milli sérgreina og faghópa. Eins verði aðstaðan nýtt til að efla til muna fjarheilbrigðisþjónustu sem sé hluti af framtíðarsýn í heilbrigðisþjónustu á 21. öld.