Dómarar skipaðir í Endurupptökudóm
Með lögum nr. 47/2020, sem tóku gildi þann 1. desember sl., var Endurupptökudómi komið á fót, en Endurupptökudómur er sérdómstóll sem tekur ákvörðun um hvort heimila eigi endurupptöku dómsmála sem dæmd hafa verið í héraði, Landsrétti eða Hæstarétti.
Í Endurupptökudómi sitja fimm dómendur, einn frá hverju dómstigi og tveir aðrir sem ekki eru embættisdómarar, en skipað er í þessar tvær stöður að undangenginni auglýsingu og umsögn dómnefndar um hæfni umsækjenda um dómaraembætti. Varamenn eru jafnmargir og skipaðir á sama hátt. Sá hæstaréttardómari sem skipaður er í dóminn er jafnframt forseti hans.
Skipunartími er fimm ár, en þó þannig að skipunartími eins manns rennur út hvert ár. Þegar skipað er í fyrsta sinn í dóminn ræður tilviljun lengd skipunartíma. Í samræmi við þetta hefur dómsmálaráðherra skipað fimm dómendur og fimm varadómendur í Endurupptökudóm. Þeir eru:
Dómendur:
- Karl Axelsson, dómari við Hæstarétt Íslands, skipaður frá 1. febrúar 2021 – 31. janúar 2022.
- Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður, skipaður frá 1. febrúar 2021 – 31. janúar 2023.
- Oddný Mjöll Arnardóttir, dómari við Landsrétt, skipuð frá 1. febrúar 2021 – 31. janúar 2024.
- Hólmfríður Grímsdóttir, héraðsdómari, skipuð frá 1. febrúar 2021 – 31. janúar 2025.
- Eyvindur G. Gunnarsson, prófessor, skipaður frá 1. febrúar 2021 – 31. janúar 2026.
Varadómendur:
- Ingveldur Einarsdóttir, dómari við Hæstarétt Íslands, skipuð frá 1. febrúar 2021 – 31. janúar 2022.
- Stefán Geir Þórisson, lögmaður, skipaður frá 1. febrúar 2021 – 31. janúar 2023.
- Aðalsteinn E. Jónasson, dómari við Landsrétt, skipaður frá 1. febrúar 2021 – 31. janúar 2024.
- Helgi Sigurðsson, héraðsdómari, skipaður frá 1. febrúar 2021 – 31. janúar 2025.
- Eiríkur Elís Þorláksson, dósent, skipaður frá 1. febrúar 2021 – 31. janúar 2026.
Endurupptökudómur hefur aðsetur hjá dómstólasýslunni að Suðurlandsbraut 14 í Reykjavík.